138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vextir og verðtrygging.

12. mál
[18:59]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir vinsamleg ummæli um mig sem formann viðskiptanefndar og þá ræðu sem ég hélt hér. Ég get tekið undir það með henni að við vinstri græn höfum alltaf lagt mikla áherslu á það að hér á þingi verði lýðræðislegum vinnubrögðum beitt og tillit tekið til sjónarmiða stjórnarandstöðunnar, að það megi ekki gleyma því að stjórnarliðar hafa margir hverjir fleiri atkvæði á bak við sig en sumir ráðherrar. Það væri mjög gaman ef þetta frumvarp framsóknarmanna fengi þannig umfjöllun og meðferð stjórnarliða að bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar gætu sameinast um að leggja fram einhvers konar tillögu eða löggjöf sem fæli í sér afnám verðtryggingar.