138. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2009.

vextir og verðtrygging.

12. mál
[19:16]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég er feginn því að fá að taka þátt í umræðu um þetta merkilega og mikilvæga mál og ég fagna því eindregið að það skuli vera komið fram. Þetta er áfangi í því að afnema verðtryggingu á lánum, eitthvert mesta böl sem íslenskur almenningur hefur búið við í áratugi. Hér mun nýja greiðslujöfnunarvísitalan og væntanlega vísitala neysluverðs fjúka út um gluggann sem mælikvarði og í rauninni váboði fyrir heimilin í landinu. Verðtrygging hefur valdið gríðarlegu tjóni á Íslandi undanfarin 25 ár, þetta er í annað skipti á 25 árum sem verðtryggingin veldur þúsundum ef ekki tugþúsundum heimila greiðsluþroti. Ég lenti sjálfur í fyrstu bylgjunni í kringum 1985 þegar ég var að kaupa mér mína fyrstu íbúð og slapp nú einhverra hluta vegna frá verstu hremmingum þar en ég þekkti margt fólk sem einfaldlega yfirgaf landið vegna þess að það missti húsnæði sitt.

Skattahækkanir sumarsins leituðu, eins og komið hefur fram, inn í hækkun á höfuðstólum lána og það var athyglisvert að á fundi fjárlaganefndar í morgun kom ríkisendurskoðandi og var að fjalla um framkvæmd fjárlaga á árinu 2009. Þar kom í ljós að þær skattahækkanir sem hækkuðu höfuðstól lána fólks um einhverja 8–10 milljarða hafa ekki skilað einni einustu krónu í ríkiskassann. Við sjáum því að þetta á sér slæmar hliðar víða.

Ég fagna líka mjög ítarlegri umfjöllun hv. þm. Illuga Gunnarssonar um þetta mál hér, hann reifaði það alveg hárrétt og það er fagnaðarefni. Ég vona að það sé ekki merki um áhugaleysi Samfylkingarinnar á þessu máli að enginn þeirra skuli vera hér í salnum en ég leyfi mér að benda á að miðað við viðtökur í öðrum flokkum er einfaldlega meiri hluti fyrir málinu, með eða án Samfylkingar og kannski náum við bara frekar að vinna þetta mál þannig ef því skiptir, ég vona það.

Að mínu mati er það mjög fínt fyrsta skref að setja þak á verðtrygginguna og ég tel að það sé kannski vænlegri leið að ná sátt um það með þessari aðferð. Mín skoðun og skoðun Hreyfingarinnar er sú að það beri að afnema verðtryggingu algjörlega. Það er ekki einfalt mál að gera það en ein hugmynd er að einfaldlega setja lög þar að lútandi sem afnema verðtryggingu með einu pennastriki eins og gert var við verðtryggð laun hér um árið. Það má síðan einfaldlega gefa sér það að öll verðtryggð lán taki vexti miðað við t.d. stýrivexti Seðlabankans með einhverju álagi þar til náðst hafa nýir samningar milli lánveitenda og lántakenda. Það þarf að vera forgangsatriði að losna við verðtrygginguna úr íslensku hagkerfi. Það má gefa sér að Íslendingar geti orðið eins og aðrar siðaðar þjóðir í þessum málum og gefi kannski út mjög löng verðtryggð ríkisskuldabréf fyrir langtímafjárfestingar lífeyrissjóða, 30, 40 ára verðtryggð bréf, en verðtrygging ætti að takmarkast við það.

Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir þetta mál og öllum þeim framsóknarmönnum sem eru á því. Þetta er mjög þarft mál og verður til mikilla bóta fyrir íslensk heimili og íslenskt efnahagslíf ef það fer í gegn og ég vona svo sannarlega að málið fái góðan framgang.