138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina þó að ég geti ekki útvegað peninga úr ræðustóli Alþingis eða fært til fjárveitingar því að það er Alþingi sem ákveður fjárveitingarnar og sá niðurskurður sem hér er rætt um er auðvitað á ábyrgð Alþingis sl. haust.

Ég vil taka undir með fyrirspyrjanda að það hefur stungið mjög í augu að þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hefur í raun verið látinn bíða vegna uppbyggingar í kringum Vatnajökulsþjóðgarð. Ég held að það sé afar óheppileg stefna einfaldlega vegna þess að nú á tímum þegar við byggjum á mikilli ferðaþjónustu eru auðvitað miklar perlur í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem við ættum að reyna að auka ferðamannastrauminn mjög mikið, m.a. á Snæfellsnesinu. Þá skiptir gríðarlega miklu máli að menn geti byggt upp þennan þjóðgarð, sérstaklega þjónustuna í kringum hann, þá vinnu sem þar er unnin, aðkomu ferðamanna og móttöku þeirra. Þetta gildir raunar um allt þetta svæði. Ég held að við þingmenn í heild ættum að skoða þetta mjög vel í sambandi við breyttar áherslur þar sem við horfum til sjávarútvegs, landbúnaðar og ferðaþjónustu, að horfa til þessara svæða þar sem þarf að efla ferðamennsku, ef okkur tekst að gera það áfram. Það væri eðlileg umfjöllun í fjárlaganefnd. Menn hafa rætt um stöðu þessara þjóðgarða, hvort þeir ættu allir að fara undir Umhverfisstofnun. Ef ekki er auðvitað að mörgu leyti eðlilegt að koma því þannig fyrir að þeir verði þá sjálfstæðir, hver fyrir sig, með svipuðum eða sama hætti. Þetta mál er til skoðunar og afgreiðslu í þinginu og ég vona að það fái þar eðlilega meðferð og afgreiðslu.