138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

afskriftir skulda og samkeppnisstaða fyrirtækja.

[11:18]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í búsáhaldabyltingunni var kallað á nýtt Ísland, byggt á gagnsæi og réttlæti. Stjórnarflokkarnir gerðu þessa kröfu að sinni í aðdraganda kosninganna og kjörfylgi þeirra má að miklu leyti rekja til þess að fólk trúði því raunverulega að hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, meintu það sem þau sögðu. Reyndin hefur því miður verið önnur.

Hið nýja Ísland norrænu velferðarstjórnarinnar byggist á leynd, pukri, baktjaldamakki og mismunun. Með endurreisn bankakerfisins gafst einstakt tækifæri til að reisa nýtt Ísland úr rústum þess gamla, kasta fyrir róða því úrelta kunningjasamfélagi sem reið íslensku efnahagslífi að fullu og gera gangskör að því að koma á eðlilegri samkeppni á fjölmörgum sviðum. Þessu tækifæri hefur ríkisstjórnin klúðrað gersamlega.

Bankarnir virðast vera önnum kafnir við að afskrifa skuldir óreiðumanna og tryggja að þeir geti haldið sukkinu áfram. Á meðan ráðherrar tala fjálglega um að þeir sem þurfi aðstoð vegna íbúðalána þurfi að sætta sig við að embættismenn ákveði í hvernig húsum þeir megi búa og hvernig bíl þeir megi aka byggja óreiðumennirnir mörg hundruð milljóna sumarbústaði um allar koppagrundir og greiða sér jafnvel arð úr eignarhaldsfélögum sem rekin eru með milljónatapi.

Fyrir ári beindi Samkeppniseftirlitið því til viðskiptabanka — sem eru í eigu ríkisins — að við töku ákvarðana er varða framtíð fyrirtækja verði höfð hliðsjón af þeim mikilvægu langtímahagsmunum almennings og viðskiptalífsins að virk samkeppni geti þrifist á sem flestum mörkuðum hér á landi. Það er lágmarkskrafa að við þær aðstæður sem nú ríkja verði ríkari hagsmunir hafðir að leiðarljósi við endurskipulagningu efnahagslífsins en fjárhagslegir skammtímahagsmunir einstakra banka eða einstaklinga. Kröfur um siðferði, samfélagslega hagsmuni og samkeppnissjónarmið hljóta að vera uppi.

Dæmdir menn, sem ekki mega einu sinni sitja í stjórnum eigin fyrirtækja, geta ekki verið æskilegar máttarstoðir hins nýja Íslands. Eitthvað hljótum við að hafa lært af reynslunni.