138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

afskriftir skulda og samkeppnisstaða fyrirtækja.

[11:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að vekja máls á þessu mjög svo alvarlega máli.

Í fyrirtækjum landsins er mikil þekking, m.a. stjórnenda, starfsmanna og birgja. Ef allt yrði sett í gjaldþrot væri hætta á að sú mikla þekking færi forgörðum. Það má ekki. Ef fyrirtæki lenda hins vegar í þeirri stöðu að reksturinn stendur ekki undir þeirri skuldsetningu sem fyrirtækið ber ábyrgð á verður að skrifa niður skuldir. Um leið á að gera þá kröfu að eigendur missi hluta af eigum sínum, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) því meira sem skuldirnar eru meiri, og að kröfuhafar komi inn í. Til þess að eigendur hafi hvata til að viðhalda þeirri þekkingu og því verðmæti sem er í fyrirtækinu, á að gefa þeim kost á því að kaupa til baka eignarhlut sinn í fyrirtækinu á kannski 10–15 árum. Þetta er sú lausn sem ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að huga að. Það þarf að gera miklu meira í því að upplýsa um hvað er að gerast, fá meira gagnsæi o.s.frv. Við stöndum núna í anddyri nýrrar aldar og ef niðurstaðan verður spilling sem étur upp auðæfi þjóðarinnar er mjög illa á þessum málum haldið. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að taka á þessum málum með mikilli festu, upplýsa þannig að eftir 2–3 ár getum við horft til baka og sagt: Þeim verðmætum var bjargað sem hægt var og það var eins lítil spilling og hægt var.