138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

staða efnahagsmála í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans.

[14:07]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir að hefja þessa umræðu í dag. Hún er brýn og þörf og mikilvæg því að efnahagsmálin eru án efa einhver mikilvægustu málin sem þarf að ræða í dag.

Við erum hér að fjalla um þetta í ljósi stýrivaxtalækkunar Seðlabankans sem lækkaði stýrivexti um 1 prósentustig, úr 12% niður í 11%, og vexti á innlán niður í 9%. Mörgum þótti þetta ekki nægilega langt gengið. Ég tek undir það og undir þau sjónarmið að hér hafi ekki verið gengið nægilega langt því að vaxtastigið er eitthvað það mikilvægasta sem þarf að ná hér niður. Seðlabankinn ber þar fyrir sig til að mynda verðbólguna sem ekki hefur hjaðnað eins hratt þrátt fyrir að spár geri ráð fyrir því að hún muni hjaðna nokkuð hratt. (TÞH: Út af skattahækkununum.) Út af skattahækkunum sem ég ætla að koma inn á hér á eftir, hv. þm. Tryggvi Þór.

Við megum þó ekki gleyma því að atvinnuvegirnir blómstra, margir hverjir úti um landið. Útflutningsgreinarnar ganga vel, en við skulum hafa hugfast þegar við fjöllum líka um vaxtalækkanirnar að þær hafa verið gagnrýndar af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég ætla ekki að verja veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, ég hefði viljað sjá hann fara héðan sem fyrst og það hefur ekki staðið á mér í þeim efnum. En Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gagnrýnt þessar vaxtalækkanir og hann gagnrýndi til að mynda fyrri seðlabankastjóra fyrir vaxtalækkanirnar sem voru framkvæmdar í hans tíð.

Af því að hv. þingmaður kom inn á skattahækkanir langar mig að taka orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, skattalækkanir okkar túlkaðar sem skattahækkanir, snúa þessum orðum við og segja hér að þær skattahækkanir sem við erum að fara í núna eru bráðnauðsynlegar vegna þess að þær skattalækkanir sem farið var í í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins voru eitthvað það vitlausasta sem hægt var að gera á þeim tíma. Nú glotta hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, en það sem við erum að ganga í gegnum hérna núna stafar af því að svona var búið í haginn, svona var skilið við. Það er það allra vitlausasta sem var gert hér þegar skattar voru lækkaðir á þenslutímum. Skattar voru lækkaðir og svo koma þingmenn Sjálfstæðisflokksins hingað og blása sig upp um að hér sé verið að hækka skatta, tekjuskatta og annað, (ÓN: Sem er ekki gert.) en það er verið að tala um það að jafna skattbyrðina í landinu. Þið ættuð að fara út í það, þrepaskiptan skatt, það er kannski rassinn á þeim sjálfum sem þeir eru hræddir um, og vina þeirra í LÍÚ og fleiri samtökum. (Gripið fram í.) [Háreysti í þingsal.]