138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:08]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er gagnmerkt mál sem við tölum hér um, er hvernig koma megi Íslandi til hjálpar í þeim efnahagserfiðleikum sem við glímum við. Það skýtur skökku við að þeir sem maður ætti að vera að tala við eru alls ekki viðstaddir í salnum. Hér er einn maður í salnum, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, tveir — en alla vega er það fyrir neðan allar hellur að stjórnarflokkarnir skuli sýna okkur þessa vanvirðingu. Meðan við mælum af heilum hug fyrir efnahagsaðgerðum láta þeir ekki einu sinni svo lítið sem hlusta. En hvað um það.

Í umræðum fyrr í dag kom fram merkileg staðreynd, grafalvarleg, sem hefur kannski farið fram hjá þingheimi. Hæstv. forsætisráðherra staðhæfði að ríkissjóður yrði rekinn með 253 milljarða kr. halla á þessu ári sem nemur um 17% af landsframleiðslu. Ég hélt að hæstv. forsætisráðherra hefði mismælt sig og talaði við hana undir fjögur augu. Hún hringdi í efnahagsskrifstofu efnahagsráðuneytisins og spurði út í þetta, hvort þetta stæðist ekki alveg, og fékk staðfest að þetta væri rétt tala.

Efnahagstillögurnar sem við sjálfstæðismenn höfum lagt til gera ráð fyrir því að með sparnaði, með niðurskurði, með breytingu á skattlagningu lífeyris og með því að auka umsvif í hagkerfinu og lækkun vaxta — ef allt þetta heppnast eins og lagt er upp megi bæta afkomu ríkissjóðs um rúma 100 milljarða. Mér sýnist, miðað við þær fréttir sem við erum að fá núna, að það sé engan veginn nóg ef halda á þessum samstarfssamningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til streitu. Það er ljóst að þetta mun verða mun erfiðara en við lögðum upp með. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvar þessi gríðarlega framúrkeyrsla hefur átt sér stað en til áréttingar var gert ráð fyrir því að ríkissjóður yrði rekinn með 153 milljarða halla á þessu ári þannig að framúrkeyrslan er 100 milljarðar. Ég held að framúrkeyrsla af því tagi hafi aldrei sést áður og í hlutfalli við landsframleiðslu hefur slík framúrkeyrsla sennilega ekki gerst í öðrum ríkjum. Ef þetta er rétt, sem ég ætla ekki að efast um, þá er gríðarlega mikið verk fyrir höndum, mun meira verk en við lögðum upp með í byrjun þings og þegar fjárlagafrumvarp var lagt fram.

Þegar haft er í huga að það verður að vera búið að samþykkja fjárlög fyrir 31. desember þá er mikil vinna fyrir höndum, og satt að segja fallast mér að nokkru leyti hendur hvað til bragðs eigi að taka. En það er ljóst að við verðum að gera það sem við stjórnarandstæðingar höfum kallað á í dag, fyrst við sjálfstæðismenn, síðan framsóknarmenn, það verður að verða einhvers konar samráð til að ráða við þetta stóra verkefni sem stækkar með hverjum deginum sem líður, hverri mínútunni sem líður eða ég veit ekki hvað ég á að segja. Ég kalla eftir þessu samráði og kalla eftir því að bundinn verði endi á þá einangrunarhyggju sem virðist plaga ríkisstjórnina. Hún verður að leita samráðs við stjórnarandstöðuna. Hún ræður ekki ein við verkið, það verður að nást einhvers konar sátt um það verkefni sem er fyrir höndum.