138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Við höldum áfram umræðu um tillögu okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins til þingsályktunar um nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála. Þessi tillaga var meðal fyrstu mála þingsins 1. október og kom til umræðu fyrir líklega 2–3 vikum. Það verður að segjast eins og er að á margan hátt erum við enn í sömu stöðu og við vorum þegar málið var lagt fram við upphaf þings og þegar það kom til umræðu. Margir þættir eru í nákvæmlega sömu óvissu og þá var, margir þættir í umhverfinu, margir þættir sem lúta að ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, skattstefnu og annað þess háttar.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um tillögu okkar efnislega, henni hafa verið gerð góð skil í ræðum annarra hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Hún lýtur að því að tekið sé heildstætt á málum, ríkisfjármálum, hagstjórn og skuldavanda heimila. Í mörgum atriðum eru tillögurnar útfærðar, í öðrum tilvikum er svigrúm og lögð á það áhersla að lausnir verði að finna í samráði bæði innan þings og gagnvart aðilum í þjóðfélaginu, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson lýsti í síðustu ræðu sinni.

Tillagan felur í sér ákveðinn leiðarvísi að því hvernig við sjálfstæðismenn teljum að nálgast beri þann vanda sem uppi er. Nú ætla ég ekki að fara í miklar umræður um það hver sá vandi er, það hefur komið ítarlega fram í umræðum í dag. Reyndar finnst mér, því miður, að hæstv. forsætisráðherra sé nokkuð bjartsýn í sinni sýn. Það er auðvitað gott að vera bjartsýnn en það er hins vegar ekki gott að loka augunum fyrir ástandinu. Þó að hæstv. forsætisráðherra hafi í ræðum sínum fyrr í dag lýst ýmsu sem hún telur að horfi til betri vegar þá verð ég því miður að segja það sem skoðun mína að mér finnst mat hennar byggja á of mikilli bjartsýni og óraunsæi. Mér finnst hæstv. forsætisráðherra skauta nokkuð léttilega yfir marga alvarlega váboða í íslensku efnahagslífi. Ég er sannfærður um það, því miður, að á næstu mánuðum og jafnvel missirum eigum við Íslendingar eftir að vera í miklu dýpri efnahagslegum vanda en hæstv. forsætisráðherra vill vera láta, því miður. Ég vildi óska að ég gæti komið upp og látið eitthvað annað álit í ljós.

Ég er hræddur um að að öllu óbreyttu muni fleiri fyrirtæki lenda í verulegum rekstrarerfiðleikum á næstu vikum, á næstu mánuðum — fyrirtæki munu verða gjaldþrota, starfsemi þeirra stöðvast og það tjón sem eigendur, lánardrottnar og ekki síst starfsfólk verður fyrir á eftir að koma fram. Þetta er mitt mat. Og það er á þessum grunni sem við sjálfstæðismenn teljum að ekki sé eftir neinu að bíða með að fara í mjög gagngerar efnahagsaðgerðir sem við lýsum í tillögum okkar og bjóðum fram sem valkost við þá stefnu sem ríkisstjórnin virðist hafa í þessum efnum. Ég segi „virðist hafa“ vegna þess að ekki er alltaf gott að átta sig á því á hvaða leið ríkisstjórnin er.

Nú er komið fram í nóvember, fyrsta vika nóvembermánaðar er liðin, og enn eru allir meginþættir fjárlagafrumvarpsins í fullkominni óvissu, tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins er í fullkominn óvissu. Við gagnrýndum það, sjálfstæðismenn, þegar frumvarpið kom fram 1. október að mjög margir þættir þar væru óskýrir og óútfærðir. Við nefndum ekki síst tekjuhliðina, skattahliðina, en hæstv. fjármálaráðherra og samstarfsmenn hans höfðu áætlað að ná þyrfti inn svo og svo miklum tekjum í nýjum sköttum. Það voru settar heildarupphæðir á það, skotið á það, en útfærslurnar skorti gersamlega. Það var almennt orðalag um að svo og svo mikið yrði tekið af einstaklingum og svo og svo mikið af atvinnurekstrinum en engar útfærslur lágu fyrir. Við höfum beðið í fimm vikur eftir því að sjá hvað meira er í spilunum að þessu leyti, hvaða tillögur eru á borðinu, hvaða tillögur ríkisstjórnin ætlar að leggja fram sem væntanlega verða þá mikilvægur liður í tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins sem á að taka gildi 1. janúar nk., eins og bent hefur verið á. Tíminn er naumur og það er ótrúlegt að ríkisstjórnin skuli skila inn hálfunnu eða óunnu verki í sambandi við undirbúning fjárlagafrumvarpsins.

Sama á raunar við um margar niðurskurðar- og sparnaðartillögurnar. Þær eru ekki útfærðar að öllu leyti. Það hefur raunar komið fram opinberlega að þegar er farið að falla frá ýmsum af þeim sparnaðarhugmyndum sem greina má í fjárlagafrumvarpinu þannig að óvissan á útgjaldahliðina er líka veruleg. Vandinn er því gríðarlegur, vandinn fyrir þingmenn okkar, því að ríkisfjármálastefnan, sem markast af fjárlagafrumvarpinu, er mikilvægasta innlegg ríkisstjórnarinnar og þingsins til efnahagsmála. Ríkisfjármálastefnan er lykilatriði. Ríkisfjármálastefnan gefur tóninn og hefur áhrif á svo ótalmarga aðra þætti í efnahagskerfinu. Óvissan varðandi skattlagningu er t.d. mjög nagandi, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki, svo að maður tali ekki um þau fyrirtæki sem hafa yfir höfði sér hótanir um sérstaka aukaskattlagningu eins og rætt hefur verið um í sambandi við orku- og auðlindaskatta.

Nú er rétt að geta þess að í umræðum fyrr í dag gat hæstv. forsætisráðherra þess að að öllum líkindum mundi ríkisstjórnin hverfa frá grófustu skattahækkunarhugmyndunum, sem við getum kallað sem svo, sem nefndar hafa verið. Það gefur okkur ákveðna von um að launþegahreyfing, atvinnurekendur og stjórnarandstaða hafi með málflutningi sínum með einhverjum hætti komið vitinu fyrir ríkisstjórnina, að augu ríkisstjórnarinnar hafi opnast fyrir því að ekki sé hægt að skattleggja sig út úr vandanum, það sé ekki leiðin upp úr efnahagsdalnum að leggja þyngri álögur á heimili og fyrirtæki. Ég svona að svo sé og ég vona að þær útfærslur sem við eigum eftir að sjá, vonandi hið allra fyrsta, á skattahækkunarhugmyndum ríkisstjórnarinnar beri þess vitni að menn hafi aðeins séð ljósið í þessum efnum.

Það eru fleiri þættir sem vert er að nefna í þessu en tími minn er naumt skorinn. Ég get ekki annað en lokið máli mínu á því að velta því fyrir mér hvað ríkisstjórnin hefur verið að gera fyrst hún hefur átt í jafnmiklum erfiðleikum með að koma saman fjárlagafrumvarpi, koma saman stefnu í ríkisfjármálum, og raun ber vitni. Hæstv. forsætisráðherra talaði fjálglega um það í ræðum sínum fyrr í dag að ríkisstjórnin hefði verið önnum kafin og ég efast ekki um það. Ég efast ekki um að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi verið önnum kafnir. Ég er bara ekki alveg viss um að þeir hafi verið önnum kafnir við að sinna réttu verkefnunum.

Ég velti því t.d. fyrir mér, af því að hér hefur verið til umræðu síðustu daga frumvarp um persónukjör, hvort sú áhersla sem hæstv. forsætisráðherra — reyndar ekki allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar — hefur sett á það mál sé í samhengi við þau viðfangsefni sem ég tel brýnast að leysa í sambandi við efnahagsmál og þjóðfélagsmál okkar Íslendinga. Skuldavandi heimilanna, skuldavandi fyrirtækjanna, vandinn í ríkisfjármálunum, þetta eru brýn og aðkallandi verkefni. Ég er ekki viss um það, og efast reyndar um það, að það sé jafnbrýnt að endurskoða aðferðina sem notuð er til að kjósa menn til sveitarstjórna. Ég leyfi mér að halda fram efasemdum um það.

Sama vil ég raunar segja um hugmyndina um stjórnlagaþing sem nú hefur komið inn í þingið enn einu sinni. Nú er reyndar búið að skera niður áætlaðan kostnað við það stjórnlagaþing niður í 300–400 milljónir í stað tveggja milljarða eins og talað var um síðasta vetur. Engu að síður spyr ég: (Forseti hringir.) Er það góð ráðstöfun á fjármagni ríkisins á þessum tímum þegar við þurfum að skera niður ýmsa grunnþjónustu í samfélaginu að setja (Forseti hringir.) 300–400 millj. kr. í stjórnlagaþing? Ég er ekki viss um það. Það eru ekki til peningar til að setja 100 millj. kr. í dómstólana. (Forseti hringir.) Þetta er mjög alvarlegt mál og ég mun hugsanlega koma nánar inn á það í síðari ræðu minni.