138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:41]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyrði því miður ekki alla ræðu hv. þingmanns Bjarna Benediktssonar. Mig langaði bara að spyrja hv. þingmann nokkurra spurninga um orkumálin, vegna þess að hann kom hér inn á þau.

Það er ljóst að ein almesta og dýrmætasta auðlind okkar Íslendinga til frambúðar eru orkuauðlindirnar og náttúra landsins og hvernig við förum með þær til langrar framtíðar, ekki bara til skemmri tíma. Og það er líka ljóst að þessar orkuauðlindir munu einungis hækka í verði með tímanum, það eru alveg hreinar línur. Þetta eru auðlindir sem allir ásækjast og við þurfum þess vegna að ráðstafa þeim mjög skynsamlega og af mikilli framsýni. Mig langar að spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson, vegna þess að hann kom inn á þessi mál sérstaklega, hvort hann sé þess fullviss að besta leiðin til frambúðar fyrir okkur varðandi nýtingu á þessum orkuauðlindum sé að þær fari í álver. Er hv. þm. Bjarni Benediktsson sammála því mati sem oftsinnis hefur komið fram, að þetta séu einhver dýrustu störf sem hér eru, er hann sammála því mati sem ýmsir sérfræðingar hafa bent á, að það sé skynsamlegra fyrir okkur ef við ætlum á annað borð að nýta allar þessar orkuauðlindir, sem Sjálfstæðisflokkurinn vill gera í það minnsta, að nýta þær í annað en álver, sem gefi þá meiri virðisauka og skilji eftir meiri pening hér heima, og til langrar framtíðar litið séu álver (Forseti hringir.) og áliðnaðurinn ekki það sem við eigum að stóla á? Eða er hv. þingmaður fullviss í sinni sök, að álver séu (Forseti hringir.) albesta leiðin?

Eitt í viðbót að lokum. Varðandi orkuöflunina til Helguvíkur — hvar ætlar hv. þingmaður að taka orkuna?