138. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[15:49]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Sem óháður þingmaður gladdist ég yfir því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skyldi leggja hér fram hugmyndir og rétta fram sáttarhönd eða sýna ótvíræðan vilja til þess að starfa með ríkisstjórninni að þeim verkefnum sem fram undan eru og eru svo erfið að ég get ekki betur séð en að það þurfi allar vinnufúsar hendur til að komast út úr þeim erfiðleikum. Ég á ekki langan feril hér á þingi en ég hef fylgst með íslenskum stjórnmálum, svo merkilegt sem það nú er, áratugum saman. Eitt stærsta áhyggjuefni mitt í sambandi við íslensk stjórnmál hefur verið sá skotgrafahernaður, sú stöðnun, hugmyndalega stöðnun sem skotgrafahernaði fylgir og hefur ríkt í íslenskri pólitík vegna óvilja hinna pólitísku flokka til að nýta bestu hliðar og bestu hugmyndir hver annars.

Hver einasti stjórnmálaflokkur á Íslandi hefur að mínu mati sér til ágætis nokkuð. Og oft var þörf en nú er nauðsyn að reyna að snúa bökum saman og sameinast um þau vandamál sem þarf að leysa og örugglega er ekki réttur tími núna til að takast á um grundvallarhugmyndir í pólitík sem mannkynið hefur deilt um, ekki bara Íslendingar, heldur allt mannkynið deilt um öldum saman.

Þess vegna finnst mér afskaplega dapurlegt að verða vitni að því að hér hefur ekki farið fram nein umræða. Hugmyndir hafa verið lagðar fram, tilkynnt um sáttarvilja, en gagnaðilinn, stjórnarflokkarnir tveir, hafa ekki sýnt þessu máli minnsta áhuga. Hér hafa talað tveir stjórnarþingmenn sem ég tel vera þeim til sóma um leið og ég lýsi vanþóknun minni á þeirri andlegu fátækt að virða sjónarmið sem koma utan þeirra eigin vébanda að vettugi.

Ég vil að lokum þakka Bjarna Benediktssyni og Sjálfstæðisflokknum fyrir að leggja fram þessar tillögur og fyrir þann sáttarvilja eða vilja til samstöðu á erfiðum tímum sem þeir hafa sýnt. Og jafnframt vil ég hvetja formann Sjálfstæðisflokksins til að halda áfram á þessari braut því að góð verk eða góður vilji fær oft litlar undirtektir í upphafi en maður á ekki að láta það buga sig.