138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

fundarstjórnarumræða og dagskrá fundarins.

[14:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það var góð ákvörðun hjá hæstv. forseta að boða til fundar þingflokksformanna núna á eftir um dagskrána í dag, og hana ber að styðja. Hins vegar breytir það ekki því, eins og nefnt hefur verið hér í umræðunni, að þingmenn hafa rétt til þess að óska þess að koma upp og tala um fundarstjórn forseta og forseti getur ekki fyrir fram útilokað þá frá þeirri umræðu, það er skýrt. Það er réttur samkvæmt þingsköpum sem verður ekki frá þingmönnum tekinn.

Hins vegar, eins og menn hafa nefnt, er þessi umræða ekki að tilefnislausu heldur vegna mjög óljósra frétta af gríðarlegum skattahækkunum nú þegar aðeins mánuður er þangað til við verðum að ljúka fjárlagafrumvarpinu. Og enn þá er tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins algjörlega í uppnámi og enginn veit hvaða skatta á að leggja á eða hvernig, það er bara vitað að þeir verða (Forseti hringir.) gríðarháir og leggjast þungt á fjölskyldur í landinu.