138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

innflutningur dýra.

166. mál
[15:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eins og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra veit hefur núverandi utanríkisráðherra um langan aldur verið áhugamaður um þá breytingu sem hér er loksins að sjá dagsins ljós. Ég tel að bæði núverandi ráðherra og fyrrverandi ráðherra hafi vandað þetta mál með þeim hætti og svo vel að það verði mjög erfitt og umhendis fyrir þingið að ætla að ganga gegn þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Ég dreg að vísu ekki dul á það að ég veit að í nefndinni sitja margir sérfræðingar en ég dreg í efa að þeir hafi þekkingu og reynslu umfram þá þrjá sérfræðinga sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kvaddi til þess að meta þetta í ráðherratíð sinni.

Ég er þeirrar skoðunar að þessi breyting geti, ef vel er á málum haldið og ég treysti svínabændum til þess, leitt til þess að framleiðni og samkeppnishæfni í þessari grein aukist verulega. Ég er ekki hræddur við frosið útlenskt svínasæði. Ég tel að sú tækni sem við búum yfir núna sé þess eðlis að það sé alveg nánast í gadda slegið að það eru ekki möguleikar á því að við munum fara yfir einhver mörk varðandi smitsjúkdóma eða dýraheilbrigði sem gætu verið óæskileg. Ég geri mér alveg grein fyrir því að hér er um prinsippmál að ræða og ber fulla virðingu fyrir skoðunum þeirra sem hafa fullan vara á sér gagnvart þessu, og vísa til yfirlýsinga sem frá mér komu þegar menn ræddu hér um innflutning á norsku kúakyni. Það sér á að núverandi utanríkisráðherra er alinn upp með góðum Mýramönnum, jafnvel framsóknarmönnum, í sveitinni, en ég tel samt sem áður að þetta sé heillaspor. Ég vil þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir dirfskuna sem hann sýnir með þessu og hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir frumkvæðið sem hann á að þessu máli. (Gripið fram í.)