138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Stefnt er að því að efla alla þá þætti sem ég nefndi í framsögu minni áðan. Sérstaklega bind ég vonir við að þessi skipulagsbreyting verði til að ýta undir ferðaþjónustuna. Verið er að svara ákveðnum óskum sem frá henni hafa komið. Þetta þýðir það t.d. í reynd að þeir starfsmenn sem hafa unnið að markaðs- og kynningarmálum erlendis koma til Íslandsstofu en samhliða því liggur alveg ljóst fyrir að ég, þessi ríkisstjórn og síðasta ríkisstjórn höfum jafnframt sagt að samfara því eigi utanríkisráðuneytið og sendiráðin að taka miklu fastar utan um ferðaþjónustuna. Þetta eru líka óskir frá þeim sem vinna við greinina sjálfa. Rétt er að greina frá því að ég er þeirrar skoðunar að hvert einasta sendiráð eigi í reynd að verða markaðsskrifstofa og við höfum þegar hafið undirbúning að því, t.d. með námskeiðum fyrir starfsmenn okkar í sendiráðunum, þannig að ég tel að þetta muni t.d. margefla þann þátt íslensks atvinnulífs.