138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[17:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér erum við að ræða mál sem er í raun löngu búið að boða. Það snýr að því hvernig við höldum á kynningu landsins okkar út á við og erlendis. Ég held að margt sé jákvætt í þeirri hugsun sem hér er sett á blað. Ég reikna með að þetta frumvarp fari í iðnaðarnefnd til umfjöllunar þar sem iðnaðarnefnd sér um ferðamál og ágætt væri að fá að vita ef svo er ekki. Fer það e.t.v. til utanríkismálanefndar? (Utanrrh.: Iðnaðarnefnd getur kallað eftir því.) Ég velti því bara upp, a.m.k. óska ég eftir því að iðnaðarnefnd fái málið til umsagnar og umfjöllunar því að stór hluti þess snýr að ferðamálunum sem heyrir undir þá nefnd.

Ég ætla svo sem ekki að hafa neitt sérstaklega langt mál um efnisinnihald þessa frumvarps. Ég tel rétt að farið verði yfir það í nefndum og kallaðir til þeir aðilar sem það snertir, bæði opinberir aðilar og einkaaðilar, þar á meðal Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök atvinnulífsins. Þegar verið er að gera breytingar sem þessar er alltaf spurning hvort þær séu til góðs og hvort við munum þá nýta betur þá fjármuni sem eru í pottinum hverju sinni. Ég hef áhyggjur af því að Íslandsstofa geti hugsanlega tekið meiri fjármuni af þeim litlu fjármunum sem við höfum í rekstur í stað þess að þeir séu veittir í verkefni eins og markaðssókn og eitthvað slíkt. Það þarf þó ekki að vera, það er mjög mikilvægt að fara yfir þetta í nefndarvinnunni fram undan. Það er hins vegar alveg ljóst að ef stofnun sem þessi tekur fé í rekstur og minnkar þar með það sem við höfum t.d. til markaðssóknar er það ekki ásættanlegt. Það er í rauninni mjög sérstakt að við skulum ekki vera að skrapa hér í þinginu fyrir stórauknum fjármunum til markaðssetningar landsins erlendis. Meðan öll þessi tækifæri sem við eigum til að markaðssetja Ísland og selja erlendis eru fyrir hendi eigum við að vera með miklu meiri fjármuni í þeim potti en við erum með í dag. Ég legg til að fyrir næsta ár verði horft sérstaklega til þess að þeir fjármunir sem eru til markaðssóknar fyrir ferðamennsku erlendis fyrir Ísland verði stórauknir. Það hefur margsinnis komið hér fram og margsýnt sig að sú króna skilar sér margfalt til baka sem sett er í markaðsmál. (ÞrB: Eflum Kvikmyndasjóð.) Til dæmis, hv. þm. Þráinn Bertelsson kemur hér með ágætt inngrip varðandi Kvikmyndasjóð. Við höfum margar leiðir til þess að efla ímynd okkar erlendis. Ég vil í framhaldi af því taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni með að við þurfum að horfa á landbúnaðar- og sjávarútvegshlutann, ekki síst það merkilega markaðsátak sem við höfum haft varðandi lambakjötið. Ég held að það sé mjög mikilvægt að átakið fari í þennan farveg líka ef svo er ekki.

Síðan verð ég aðeins að koma inn á annað sem er þessu beintengt. Ég hef verulegar áhyggjur af því að á sama tíma og við erum hér að fjalla um mál sem þetta, við erum að tala um sókn erlendis fyrir ferðamennskuna og að auglýsa Ísland, séum við að ræða um stóraukna skattheimtu á marga hluti sem koma ferðaþjónustunni við. Auðvitað vitum við ekki í dag hvort þeir munu allir ná fram að ganga, en ef við ætlum að stórauka skatt, sem ég hafði reyndar aldrei heyrt talað um áður, á skemmtiferðaskip þegar þau koma til landsins, taka upp einhver komugjöld eða skatta á þá ferðamenn sem koma til landsins, skattleggja gistingu enn þá meira með því að fara með virðisaukaskattinn úr 7% í 14%, leggja á kolefnisskatt, sem leggjast mun á flugvélar, rútur og bílaleigubíla, erum við ekki komin út á svolítið hálan ís gagnvart skattlagningu á ferðaþjónustuna? Ég vara mjög við því að vaðið verði í að hækka svo mikið skatta á þessa atvinnugrein að það snúist upp í andhverfu sína. Ég held að það sé veruleg hætta á því.

Eflaust má færa fyrir því rök að hægt sé að auka hér skatta mikið og um leið að taka þá hluta af þeim og setja í bætt aðgengi og markaðssókn og annað en ég held að það geti eins og ég sagði áðan snúist upp í andhverfu sína ef menn ganga of langt í því.

Ég vildi koma því á framfæri hér að ég hef miklar áhyggjur af þeirri vegferð ríkisstjórnarinnar að fara í þá miklu skattheimtu sem virðist vofa yfir ferðamennskunni. Ég held að við hljótum að taka þá umræðu samhliða þessari umræðu um Íslandsstofu í þeim nefndum sem þetta frumvarp fer til svo við getum glöggvað okkur á heildarmyndinni. Það er ekki snjallt hjá ríkisvaldinu hverju sinni að gefa með annarri hendinni en taka með hinni því að það endar með því að menn elta einfaldlega skottið á sjálfum sér.

Ég fagna því í þessu frumvarpi að meiri hluti þeirrar stjórnar sem þarna á að vera skuli koma frá aðilum í greininni. Ég held að það sé mjög jákvætt og mun því nálgast þetta verkefni eins og öll önnur með jákvæðum huga í þeirri nefnd sem ég sit í og fær þetta vonandi til umfjöllunar, en ég vara mjög við, eins og ég nefndi áðan, þeirri gjaldtöku sem horft er til.