138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[17:32]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þau svör sem ég fékk. Það er reyndar ein spurning sem ég sakna svars við og það er um skrifstofu ferðamálastofu í New York. Það á að loka í Kaupmannahöfn og það á að loka í Frankfurt, en ekki í New York. Og eins og ég skil þetta mál þá er þetta frumvarp meira eða minna byggt á niðurstöðum nefndar sem Geir H. Haarde, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, setti niður 2007. Svafa Grönfeldt var formaður í þeirri nefnd og það var margt gott fólk í nefndinni. Nefndin kom með skýrslu upp á 88 síður, sem er mjög fróðleg lesning. Þar er undirstrikað og helstu niðurstöður nefndarinnar voru þær að ímynd Íslands væri almennt jákvæð en veikburða og smá erlendis og byggi fyrst og fremst á upplifun af náttúru en ekki af þjóð, menningu eða atvinnustarfsemi. Nefndin lagði til að ímyndaruppbygging Íslands miðaði að því að skapa jákvæða og sterka ímynd, ekki bara af náttúrunni sem er það sem við höfum lagt svo mikla áherslu á, heldur einnig af fólki, atvinnulífi og menningu. Og af því þetta var svo óskýrt og óskilvirkt þá átti að stofna það sem nefndin kallaði Promote Iceland sem hefur verið þýtt í Íslandsstofa.

Þetta er því byggt að verulegu leyti á þessu, útvíkkað að einhverju leyti. Ég vona að það sé rétt sem hæstv. utanríkisráðherra segir að sjávarútvegur og landbúnaður séu þarna inni og að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins verði með og væntanlega verða þá inni í þessu áform um átak í landbúnaði.

Í skýrslunni sjálfri, hinni 88 síðna löngu skýrslu, er lagt til að allar skrifstofurnar verði lagðar niður, líka í New York, en það skilar sér ekki í frumvarpið. Ég vil bara inna eftir ástæðunum fyrir því, ekki þar með sagt (Forseti hringir.) að það séu ekki einhverjar skynsamlegar ástæður fyrir því að svo sé en ég hef ekki fengið nein svör um það.