138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

samningsveð.

7. mál
[18:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að gera athugasemd við þann málflutning eða þá fullyrðingu sem hv. þingmaður hafði hér í frammi. Reynsluheimur þingmannsins er greinilega ekki sá sami og minn. Ég umgengst kannski fleiri sjálfstæðismenn en hv. þingmaður og ég get ekki fullyrt að allir sjálfstæðismenn taki yfirleitt stöðu með fjármagni gegn heimilum, ég vil algerlega vísa þeim málflutningi út í hafsauga.

Ef hv. þingmaður mundi t.d. skoða tillögur okkar sjálfstæðismanna í efnahagsmálum, sem við lögðum fram (ÁsmD: Ég tók þátt í umræðunni.) — hann tók þátt í umræðunni, einn af fáum stjórnarliðum. Hann sér það þá kýrskýrt að þar er ekki verið að taka stöðu með fjármagni gegn heimilum. Þvert á móti erum við að leggja til aðgerðir sem munu koma heimilunum og fyrirtækjunum — ef hv. þingmaður á við það að við sjálfstæðismenn tökum afstöðu með atvinnulífinu þá ætla ég að viðurkenna það, ég tek á mig sök í þeim efnum. Ég get algerlega leiðbeint hv. þingmanni með það að hagsmunir atvinnulífsins og hagsmunir heimilanna fara saman. Í því verkefni sem við tökumst á við núna getum við leyst svona mál en við leysum ekki efnahagsvandamálin til framtíðar ef við sköpum ekki atvinnu og þar með heimilunum laun og heimilunum fyrirvinnu til að geta staðið skil af lánum sínum sem er það sem við viljum öll gera.