138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[18:54]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér líkar mjög vel það sem hæstv. umhverfisráðherra er að segja hér og hef ekkert út á það að setja, alls ekki. Ég lýsi mig sammála því að það eigi að halda íslenska ákvæðinu til haga þangað til við vitum í hvað við erum að fara. Það er skynsamlegt.

Ég er svolítið spennt fyrir að vita aðeins meira um 5% en ég heyri að hæstv. umhverfisráðherra vill ekki tjá sig um þau hér og geri enga athugasemd við það. Ég heyri að hæstv. umhverfisráðherra ætlar að bjóða þingflokkunum upp á hitta okkar helstu sérfræðinga í þessum mjög svo tæknilegu málum og fara yfir þá samningsstöðu sem við erum í af því að þetta er allt að bresta á og ég fagna því þó að ég hafi miklar efasemdir og óttist að það verði of lítill árangur af Kaupmannahafnarfundinum. Mér heyrist á allri orðræðu á Norðurlöndunum og í Evrópu að svo verði. Obama ætlar ekki einu sinni að mæta, mér skilst að hann hafi ætlað að mæta en finnist nóg að fara einu sinni til norrænnar höfuðborgar. Forseti Bandaríkjanna tekur á móti friðarverðlaunum Nóbels þannig að það er víst ferðin og mér skilst að hann muni ekki koma á þennan Kaupmannahafnarfund, því miður.

Það hefði verið frábært ef Bandaríkjamenn hefðu sýnt þessu virkilegan áhuga. En látum það vera, vonandi sýna þeir þessu samt mikinn áhuga þó að hann mæti ekki. En ég hefði þá gjarnan viljað að samninganefndin undirbyggi sig fyrir þessa umræðu um 5% þegar hún hittir þingflokkana og að við fengjum svolítið skýr svör um það hvaða tækifæri þessi 5% skapa fyrir okkur í framtíðinni.