138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jöfnurnar í þessu þurfa ekki að vera mjög flóknar, alla vega er eins og ég legg þetta dæmi upp einfaldlega betra að framleiða vöru á Íslandi með hreinni endurnýjanlegri orku en að framleiða hana með kolum eða olíu einhvers staðar annars staðar. Hins vegar kemur það ekki í veg fyrir að við getum nýtt orkuna í eitthvað annað en framleiðslu sem mengar. Við eigum að sjálfsögðu að leita allra leiða til þess að koma hér upp atvinnuvegum sem gefa virðisauka en eru ekki mengandi.

Ég vil reyndar leyfa mér að fullyrða að fá lönd, án þess að ég hafi tölur fyrir framan mig, skili í rauninni jafnmiklu til heimsins og Ísland gerir. Auðvitað getum við reiknað dæmið, eins og okkur er gjarnt, á haus og hvert tonn af einhverri framleiðslu. Við getum alltaf leikið okkur að slíku en ég held að stóra myndin sé þessi: Orkan sem við eigum hérna á Íslandi er hrein og endurnýjanleg. Hún er ekki óþrjótandi, það er alveg klárt mál, en enn er töluvert af henni ónýtt. Við eigum að vera stolt af því að nýta hana, hvort sem er til að framleiða vöru, koma af stað þjónustu eða annað slíkt, ef það verður til þess að minnka mengun í heiminum í heild. Við eigum ekki að gera lítið úr því en það réttlætir samt engan veginn að við horfum fram hjá öðrum atvinnugreinum sem menga ekki. Við eigum þvert á móti að ýta undir að auka þá starfsemi.