138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

9. mál
[19:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að koma upp og spyrja út í nokkra hluti í ræðu minni eða velta þeim aðeins upp. Mér finnst sérstaða Íslands vera þess eðlis að við eigum að berjast fyrir okkar ýtrustu hagsmunum kinnroðalaust hvað þetta varðar. Ég heyrði á máli hæstv. ráðherra áðan að Ísland mundi sitja við sama borð og önnur EES-ríki frá 2013. Mér finnst mjög mikilvægt að þar sem umræðan getur orðið dálítið tæknileg og flókin, eins og hæstv. ráðherra kom réttilega inn á, að barist sé opinberlega, eins og þessi þingsályktun hvetur til, fyrir ýtrustu hagsmunum Íslands á öllum sviðum þangað til ljóst er hvaða kerfi tekur við og þangað til ljóst er að okkar hagsmunum er borgið, vegna þess að okkar hagsmunir í þessu máli eru miklir. Ég held að umræðan í dag, bæði hjá hv. þingmönnum og hæstv. ráðherra, hafi sýnt að við erum kannski ekki svo ofsalega ósammála um þann þáttinn, þ.e. að gæta ýtrustu hagsmuna Íslands í loftslagsmálum, þótt inn í þetta virðist blandast hugmyndir manna um hvað á að nota hina endurnýjanlegu orku á Íslandi til, sem mér finnst vera minna atriði í þessu sambandi.