138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

lán og styrkir frá Evrópusambandinu.

118. mál
[15:50]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er vissulega vert viðfangs og athyglisvert að velta fyrir sér aðgangi að lánum og styrkjum. Það er þó algjört aukaatriði í þessu ferli öllu saman. Það er ánægjuefni hve rösklega umsóknin sjálf hefur gengið. Nefndin sem kynnt var samninganefndinni í síðustu viku var mjög vel skipuð og mæltist almennt afskaplega vel fyrir. Þar er valinn maður í hverju rúmi. En auðvitað skiptir öllu máli sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem mun fara hér fram eftir nokkur missiri um samninginn sjálfan. Og hvað skiptir mestu máli í samningsferlinu? Það eru yfirráðin yfir auðlindunum. Það eru hagsmunir landsbyggðar og landbúnaðar. Það er möguleg upptaka evru á næstu árum. Þetta er það sem skiptir öllu máli og þetta er það sem hin málefnalega umræða á að snúast um á næstu árum. Því hljóta Evrópuflokkarnir tveir, Framsókn og Samfylking, að fagna sérstaklega og beita sér fyrir málefnalegri umræðu um það mál. Hvað sem líður aðgangi að styrkjum og lánum og þeirri betlipólitík sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson talaði um hér áðan — hún er ekki það sem skiptir máli í þessu og ekki það sem rak þessa umsókn (Forseti hringir.) og það ferli áfram.