138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

112. mál
[11:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsöguræðuna um þetta mikilvæga málefni sem liggur fyrir, að hér er loksins komið frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Átt hefur sér stað ákveðið fullveldisafsal þjóðarinnar þar sem forsætisráðherra hefur lagt inn umsókn að Evrópusambandinu. Ég fór yfir stjórnskipulegan rétt þeirrar umsóknar í löngu máli í sumar þegar verið var að ræða aðildarumsókn að ESB og ætla ég ekki að endurflytja þær ræður. En úr því að það er ekki fullveldisákvæði inni í stjórnarskránni, er ekki heldur ákvæði um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu við fullveldisafsal og er það mjög miður, sér í lagi þar sem þjóðin virðist ekki treysta framkvæmdarvaldinu svo mjög nú um stundir.

Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Komi hún til með að gegna því embætti sem hún situr í nú, mun hún beita sér fyrir því að framkvæmdarvaldið fari að vilja þjóðarinnar í þeirri atkvæðagreiðslu sem boðuð er, sem er ekki bindandi? Sú staða getur komið upp að þjóðin segi já, en þingið nei. Jafnframt getur komið upp sú staða að þjóðin segi nei en þingið já, úr því að hér á þingi eru alþingismenn eingöngu bundnir af sannfæringu sinni.

Þarna komum við aftur að því að þjóðaratkvæðagreiðslan er ekki bindandi fyrir stjórnvöld og þess vegna hefur þjóðin ekki lokaorðið í þeirri atkvæðagreiðslu sem boðuð er við aðildarsamninginn sem nú er verið að semja um. Getur hæstv. forsætisráðherra lofað þjóðinni því héðan úr þessum ræðustól 12. nóvember að framkvæmdarvaldið geri allt sem það getur til að fara eftir þeim úrslitum sem þjóðaratkvæðagreiðslan leiðir?