138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

fjárhagsstaða dómstóla.

[13:32]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingu á lögum um dómstóla. Með því er verið að gera breytingar á skipulagi dómstóla og virðist megintilgangurinn vera sá að ná fram sparnaði í dómstólakerfinu með því að gera breytingar á embættum héraðsdómara. Því miður, og kom það fram í 1. umr. um málið hér á dögunum, virðist markmið breytinganna fyrst og fremst vera að ná fram sparnaði, sem ekki skal gera lítið úr á þessum tímum, en þau markmið sem varða skilvirkni og fagmennsku í dómskerfinu og mikilvægi þess að réttaröryggis sé gætt um allt land eru að mínu viti óljós í þessu frumvarpi.

Á sama tíma blasir við að verulegur vandi er hjá dómstólum, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu, vegna aukins álags í kjölfar bankahrunsins. Það eru margvísleg mál sem eru væntanleg inn í dómstólana vegna sérstakra rannsókna og einnig afar umfangsmikil ágreiningsefni sem að fara nú inn í dómskerfið vegna uppgjörs á þrotabúum t.d. gömlu bankanna og annarra stórra fyrirtækja þannig að fyrirsjáanlegt álag á dómstóla Héraðsdóm Reykjavíkur og jafnvel líka í Hafnarfirði getur orðið umtalsvert.

Það er mjög mikilvægt að mínu áliti að þau álitamál og ágreiningsmál sem upp koma og uppi verða vegna bankahrunsins gangi sæmilega vel fyrir sig í dómskerfinu. Nú þegar hafa verið teknar tilteknar ákvarðanir til að mæta þeim álitamálum sem urðu vegna bankahrunsins og aukið fé hefur verið sett í rannsóknir á þeim atburðum og skipulag í kringum rannsóknir á bankahruni o.fl. er komið í ákveðinn farveg. Má þar nefna embætti sérstaks saksóknara og þær styrkingar sem þar hafa verið gerðar, auk þess sem settur hefur verið á fót sérstakur ríkissaksóknari. Eins er ástæða til að nefna hér rannsóknarnefnd Alþingis þótt þau verkefni séu með nokkuð öðrum hætti en er í rannsóknarkerfinu.

Það er ástæða til að líta til þeirra fjármuna sem settir hafa verið í þann þátt mála. Ég tel mjög mikilvægt að þegar við lítum á þá fjármuni sem settir eru í rannsóknir á málum, að menn geri sér grein fyrir því að þessi mál þurfa síðan að fara fyrir dómstóla og má ekki gleyma þeim þætti þegar fjármagn er veitt í þennan málaflokk.

Embætti sérstaks saksóknara mun á árunum 2009–2010 vera með rúmar 360 milljónir, rannsóknarnefndin mun hafa um 250 milljónir og hér erum við þá að tala um 600 millj. kr. Ef við lítum síðan á dómstólana eru héraðsdómarar í landinu með 960 millj. kr., Hæstiréttur er með ríflega 100 millj. kr. í fjárveitingu. Ef við lítum á samanburð t.d. við umboðsmann Alþingis, sem er líka mikilvægt embætti, er hann, í samanburði við Hæstarétt, með 120 millj. kr. Það skýtur því dálítið skökku við hvernig fjármunum er ráðstafað þegar horft er til dómskerfisins. Ég held að menn hafi reynt að spara þar eins og mögulegt er til að reyna að ná fram þeim sparnaði sem við gerum öll ráð fyrir að þurfi að nást, en það má ekki verða á kostnað þess að dómskerfið verði óskilvirkt, að þar myndist halar af málum vegna þess að álagið er of mikið. Það vantar hreinlega mannskap.

Það er þessi forgangsröðun sem mig langar til að ræða við hæstv. dómsmálaráðherra. Þá vil ég sérstaklega nefna atburði vegna þessa bankahruns og alls þess sem í kringum það mál skapast. Það er ekki hægt að mínu viti, og ég vil gjarnan heyra sjónarmið hæstv. dómsmálaráðherra í þessu efni, að setja umtalsverða peninga í rannsóknir en líta ekki til þess að þessi mál þurfa síðan að fara fyrir dómstóla. Það er slæmt fyrir réttaröryggið í þessu landi ef gríðarlegur dráttur verður á því að niðurstaða fáist, bæði fyrir þjóðfélagið sjálft og einnig fyrir þá sem eiga ýmislegt undir því að niðurstaða fáist. Þegar á allt er litið er mjög mikilvægt fyrir réttarríkið nú um stundir að við náum að klára þessa hluti með eðlilegum hætti. Og ég held að það sé líka mikilvægt að við einbeitum okkur að þessum þáttum en förum ekki í skipulagsbreytingar á héraðsdómstólum núna, sem ég get ekki betur heyrt en að séu töluvert umdeildar. Það má alveg gagnrýna ýmislegt í því. Ég held að það sé nær, og ég hvet hæstv. dómsmálaráðherra til þess, að einbeita sér frekar að því að reyna að búa svo um hnútana að dómstólarnir muni geta fengið þá fjármuni sem þeir verða að fá (Forseti hringir.) til þess að ljúka þeim nauðsynlegu málum sem fyrir þá verða lögð á næstunni.