138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

fjárhagsstaða dómstóla.

[13:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hér er. Það er greinilegt að allir flokkar eru sammála. Þrátt fyrir að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson vildi byrja ræðu sína á að benda á að einungis þingmenn stjórnarandstöðunnar tækju undir áhyggjur Rögnu heyrist mér að þingmenn allra flokka taki undir þessar áhyggjur. Fjárhagur ríkisins er mjög þröngur eins og við vitum, og eins og hv. þingmaður veit sem á sæti í fjárlaganefnd (Gripið fram í: Og ekki í ríkisstjórn.) er fjárhag ríkissjóðs mjög þröngt sniðinn stakkur.

Við vitum af þeim vanda sem við blasir og við vitum af því að þetta verður mjög erfitt. Ég tek undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur þegar hún bendir á að fangelsismál og löggæslumál eru nátengd þessu. Við vitum hvað fram undan er hér og hvernig þetta hefur aukist og hæstv. dómsmálaráðherra benti á það í ræðu sinni áðan. Það eru allir meðvitaðir um það sem mun gerast á næstu mánuðum og næsta ári sem tengist bankahruninu, sem tengist því að neyðarlögunum verður hnekkt, sem tengist sérstökum saksóknara, sem tengist auknum fjölda gjaldþrotamála. Ég veit að þetta verður til umræðu og hefur verið til umræðu í fjárlaganefnd. Það verður það áfram, en eins og ég segi aftur: Við verðum að leita allra leiða til að ná fram hagræðingu og það eru allir meðvitaðir um þetta. Við vitum öll nákvæmlega hver staðan er þegar kemur að fjárhag ríkissjóðs.

Um leið og ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir að hefja þessa umræðu hér í dag tek ég undir með hv. þm. Róberti Marshall þegar hann gagnrýnir Sjálfstæðisflokkinn fyrir það hvernig hann gengur hér fram og talar eins og hann þekki ekki hver fjárhagsstaðan er. Það er jú þannig, eins og hv. þm. Atli Gíslason benti á, (Forseti hringir.) að vaxtagjöld ríkissjóðs eru nærri 100 milljarðar á þessu ári. Það er sá stakkur sem okkur er sniðinn í þessum málum um leið og við þurfum auðvitað að gæta að málum eins og dómsmálum.