138. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2009.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:09]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta er rétt ábending hjá hv. þingmanni. Ég gleymdi í ræðu minni að auðvitað þarf tvennar kosningar. En ég tel að það sé engu að síður meira um vert að þegar boðað verður til þessa stjórnlagaþings fái það raunverulegt stjórnarskrárvald og úr því sem komið er megi þá bíða þess að það sjái fyrir endann á þessu kjörtímabili. Þá erum við náttúrlega ekki að tala um næstu sveitarstjórnarkosningar eða kosningar til Evrópusambandsins, sem lið í því ferli. Mér yfirsáust þarna einar kosningar í þessari kosningaröð. Engu að síður finnst mér að vanda þurfi til þessa máls og úr því sem komið er held ég að farsælla sé að við stöndum þannig að verki að hægt sé að boða til þessa þings þannig að það sé í raun og veru óháð Alþingi Íslendinga þegar það kemur með tillögur sínar, þó að það kosti kannski þriggja, fjögurra ára bið frá því sem nú er.