138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum.

[11:48]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir gríðarlegu stóru sameiginlegu verkefni. Við þurfum að aðlaga tekjur að gjöldum. Vandamálið er hins vegar þó nokkuð stærra en það þyrfti að vera vegna þess að hér voru gerð alvarleg mistök í skattapólitík á árunum 1995–2005. Hvað gerðist þá? Þá jukum við skattbyrði einstaklinga og fjölskyldna mun meira en í öðrum OECD-ríkjum. Við jukum skattbyrðina mest hjá tekjulægstu hópunum, en skattbyrði hátekjufólks, þ.e. efstu 10%, lækkaði verulega á sama tíma. Skattbyrði flestra fjölskyldugerða jókst, mest hjá einstæðum foreldrum og lágtekjufólki. (Gripið fram í.) Skattbyrði öryrkja jókst mikið á sama tíma, skattbyrði eldri borgara sömuleiðis og skattbyrði ungra barnafjölskyldna jókst mikið á árunum 1995–2005, (Gripið fram í.) þ.e. skattstefnan gjörbreyttist vegna rýrnunar skattleysismarka, eins og áður hefur komið fram, og upptöku fjármagnstekjuskatts um leið og skattar á fyrirtæki og fjárfesta voru lækkaðir verulega. Skattstefna (Gripið fram í.) Íslendinga var að þessu leyti einstök á þessum árum þegar auknar voru álögur á tekjuminni hópa. (Gripið fram í.)

Svo stöndum við frammi fyrir því vandamáli í dag að við þurfum að takast á við þennan nýja veruleika. Og þá hljótum við að horfa til þeirra sem geta lagt eitthvað af mörkum. Hverjir eru það? Það eru þau fyrirtæki sem eru stöndug og það eru þeir einstaklingar sem eru stöndugir, t.d. þau fyrirtæki sem fá við upphaf fiskveiðiárs úthlutað úr sameiginlegum sjóðum okkar, (Gripið fram í.) þ.e. úr auðlindum okkar, (Gripið fram í.) og geta þess vegna lagt eitthvað meira til í sameiginlega sjóði. Þessi fyrirtæki búa t.d. í dag við auknar tekjur vegna veiks gengis krónunnar.

Við horfum líka til þeirra einstaklinga sem eru hvað auðugastir. 0,8% af fjölskyldugerðum eiga tæplega 13% af sameiginlegum eignum okkar. Þetta eru u.þ.b. 360 milljónir á fjölskyldu að meðaltali. Þetta fólk getur að sjálfsögðu lagt meira til sameiginlegra sjóða, þá sérstaklega er illa árar.

Við hljótum líka að horfa til séreignarsjóðanna sem geta líka lagt eitthvað af mörkum án þess þó að rýra lífeyrisgreiðslur núna og án þess þó að rústa samtryggingarkerfið. (Gripið fram í.) Það eru þessar hugmyndir sem eru uppi núna hjá okkur í ríkisstjórninni og ég hlakka til að taka öfluga málefnalega umræðu við stjórnarandstöðu þegar skattahugmyndirnar koma hér inn í þingið. (Gripið fram í: Góður, Magnús.)