138. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:13]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram varðandi starfshópinn sem er að störfum að sjávarútvegsráðuneytið leggur að sjálfsögðu ekki niður störf þó að starfshópur vinni að heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það frumvarp sem hér er lagt fram er auðvitað aðskilinn þáttur frá því og heildarendurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins er verkefni út af fyrir sig.

Ég kem hér vegna þeirra orða hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar að ég hafi óskað eftir rannsókn á orsökum þess að leigukvóta skorti á markaði. Ég hef aldrei heyrt minnst á þessa hugmynd fyrr en hún kom fram í máli hv. þingmanns og ég ber af mér þessa rannsóknarbeiðni en þetta er hins vegar athyglisverð hugmynd. Henni er þá komið greinilega nú á framfæri hér á Alþingi af vörum hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar.

Sú rannsókn sem ég hef hins vegar talað um lýtur að vísindaveiðum á þorski til að efla þekkingu okkar enn frekar á lífsskilyrðum þorsksins í hafinu nú þegar hitastig sjávar er að hækka og nýjar fiskitegundir og nýjar tegundir eru að koma inn á miðin við landið, makríll, skötuselur o.fl., tegundir sem eru ágengar og leggja sér jafnvel til munns aðrar fisktegundir sem þorskurinn lifir á. Þetta kallar á að aukið verði við rannsóknir á þorski og lífsskilyrðum hans og það verði gert með nýjum rannsóknaraðferðum. Ég hvet menn til þess að kynna sér þá hugmynd betur en ber af mér einhverja rannsóknarbeiðni vegna skorts á leigukvóta — þó að sú hugmynd sé afar athyglisverð og henni er hér með komið á framfæri af hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni.