138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:05]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi vísindaveiðarnar, gólfið og þakið, hef ég séð það þannig fyrir mér að þessar veiðar yrðu viðbót við úthlutað aflamark. En í ljósi þess að við erum að tala þarna um mjög skamman tíma, kannski 6–9 mánuði, tel ég að engin áhætta sé tekin, en ég ítreka það sem ég hef áður sagt að ef farið yrði út í slíkar veiðar finnst mér að það yrði að vera í vísindalegu skyni. Við förum ekki út fyrir ráðlagða veiðiráðgjöf nema til að læra eitthvað af því í leiðinni. Við gerum það ekki bara til þess að fá aukið fé í budduna.

Varðandi skötuselinn er ég hlynnt því að náttúran njóti vafans, en skötuselur er ágeng fisktegund og vaxandi stofn á Íslandsmiðum þannig að ég held að ekki sé ástæða til að óttast það mjög þó að aflaheimildir séu auknar í þessari tilteknu tegund. Ég trúi því að þessi tillaga sé komin inn í frumvarpið að höfðu samráði við Hafrannsóknastofnun án þess að ég ætli nú að svara fyrir það.