138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi spurði hv. þingmaður um vinnsluskylduna og hvernig ráðherra hygðist beita henni. Þetta er fyrst og fremst heimild til ráðherra en hún er stefnumarkandi þannig að það er lögð áhersla á að vinnsluskyldan sé höfð að leiðarljósi. Vonandi þarf ráðherra ekki að beita henni en hún er samt kvöð. Þegar var gefinn út núna upphafskvóti í síld, sem var mjög ánægjulegt, upp á 40 þús. tonn var einmitt lögð áhersla á að útgerðaraðilar kæmu með allar aukaafurðir að landi og allan afskurð í land. Þetta er það sem er stefnumarkandi. Að hvaða marki ráðherra þarf síðan að beita því hverju sinni, ég held að útgerðirnar séu á sama báti hvað það varðar, þannig að þetta er stefnumarkandi ákvörðun.

Varðandi það sem hv. þingmaður minntist á um að takmarka flutning á aflaheimildum milli fiskveiðiára, vil ég bara minna á að Hafrannsóknastofnun leggur til ráðgjöf á veiðimagni innan einhvers ákveðins tíma sem er innan fiskveiðiársins. Á þeim grunni eru svo gefnar út þær aflaheimildir sem gert er ráð fyrir að veiddar séu á viðkomandi ári. Það þýðir að bæði þjóðarbúið og atvinnulífið í landinu gerir ráð fyrir að þessi afli komi að landi innan ársins. Sá sveigjanleiki sem er þarna áfram inni upp á ein 15%, eins og hv. þingmaður minntist á, er samt talsverður og auk þess hafa útgerðir heimild til að ganga, að mig minnir, allt að 5% inn á aflaheimildir næsta árs til að jafna þann sveigjanleika. Sveigjanleikinn er því ærinn fyrir. En ég vil minna á að það er ekki bara útgerðin ein sem þarna á í hlut heldur líka atvinnustigið, efnahagslífið og annað því um líkt, sem gerir ráð fyrir því að sá fiskur sem þarna er um að ræða komi og sé veiddur innan þess tíma og komi þannig inn í efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar. Ég hygg að útgerð eins og Fisk á Sauðárkróki standi sig einmitt vel í þessum efnum (Forseti hringir.) sem öðrum.