138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að Sjálfstæðisflokkurinn er Sjálfstæðisflokkurinn. En hitt vissi ég ekki að Vinstri grænir væru Frjálslyndi flokkurinn. (Gripið fram í.) Það er það sem kemur auðvitað á óvart í þessu öllu saman.

Frumvarpið snýr að ákveðnum grundvallarsjónarmiðum og það kom réttilega fram hjá hæstv. ráðherra. Þetta eru grundvallarsjónarmið sem m.a. snúa að því hvernig, eins og ég nefndi áðan, er farið með þá þegar leyft er að auka veiðar í ákveðnum tegundum sem eru í kvóta. Það er grundvallarmál. Fram kom hjá hæstv. ráðherra að um slík mál skyldi fjalla í þeirri nefnd sem hann setti á laggirnar og það skyldi vera gert þannig að um það næðist sátt í samfélaginu. Með þessu er verið að rjúfa þá sátt sem m.a. hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra lögðu áherslu á í yfirlýsingu sinni hvað varðar samskipti ríkisstjórnarinnar við aðila á vinnumarkaði að yrði haldin. Það var grundvallaratriði. Og sama þegar menn skoða aðrar greinar og einstök atriði í frumvarpinu, rétt eins og umræðan um hversu mikið menn skulu veiða, þ.e. veiðiskyldan, hún hefur það í för með sér, það er alveg ljóst og ég held að enginn reyni að bera því í mót, að það er þannig að þetta þýðir að leiguverðið mun hækka. Það verður erfiðara fyrir nýliða að komast inn í greinina og verið er að auka afskipti, pólitísk afskipti, af sjávarútveginum. Verið er að ýta undir það að ráðherra geti með ákvörðun sinni, þó að melding um slíkt hafi komið frá Hafró, ákveðið að auka heimildir manna til að flytja á milli ára, eða minnka, allt eftir hentugleik, án þess að sérstaklega sé kveðið á um það, það er bara ákvörðun hans. Sama á við um vinnslu úr uppsjávarfiskinum. Nú er það ráðherra sem með símtali getur ákveðið og tilkynnt að ekki eigi að fara með fisk í bræðslu, þó það sé jafnvel hagkvæmasta leiðin fyrir viðkomandi útgerð, að mati þeirra útgerða og vinnslu. En ef hæstv. ráðherra kemst að annarri niðurstöðu, þá tekur hann upp símann og getur sagt: Heyrðu, þið eigi að vinna þetta öðruvísi. (Forseti hringir.) Ég er ekki viss um að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé besti aðilinn til að ákveða hvernig eigi að vinna fisk á Íslandi, því miður.