138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi skilin á milli þeirra verkefna, brýnu verkefna, sem ráðuneytið tekst á við og hefur hér að nokkru verið lagt fram í frumvarpsformi, og þeirrar nefndar eða starfshóps sem á að taka á hinum stóru dráttum til framtíðar, þá hafa þau alltaf verið mjög skýr, bæði þegar þau voru kynnt í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, í ræðum á Alþingi þar sem ég hef lagt áherslu á þetta, í umræddri ræðu á aðalfundi LÍÚ þar sem var mjög fróðlegt að koma og ánægjulegt, þar einmitt gat ég um að væntanlegt væri á næstu dögum frumvarp sem lyti að tilteknum atriðum við framkvæmd á stjórn fiskveiða. Ég rakti þau mjög ítarlega líka og kom inn á þau í ræðu á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda. Ég hef gert þetta víðar, þannig að það er ekkert sem kemur á óvart í sjálfu sér í þeim efnum.

Ef hins vegar sá starfshópur sem núna vinnur að þessum stóru dráttum, að eignarhaldi í sjávarútvegi og framtíðarskipan í þeim málum, kemur síðan fram með tillögur sem þykir rétt að fylgja eftir í frumvarpsformi inn á Alþingi og taka á þeim þáttum sem hér er um að ræða, þá gerir Alþingi það að sjálfsögðu.

Varðandi umræðuna um skötuselinn, sem er algjörlega nýr stofn hér, algerlega nýr fiskur og er í stöðugri útbreiðslu hér, þá er þar um að ræða bráðabirgðaákvæði sem fellur sjálfkrafa úr gildi og þarf að flytja nýtt frumvarp til laga um að halda áfram að einu og hálfu ári liðnu. Þetta er það sem verið er að fjalla um, frú forseti. (Forseti hringir.) En ég legg áherslu á það að ef hv. þm. Kristján Þór Júlíusson les fleiri greinar vel, held ég að hann verði hrifinn af þeim öllum.