138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Róbert Marshall um eitt sem kemur fram í þessu frumvarpi, þ.e. þessa nýju allt að 2.000 tonna potta í skötusel sem á að leigja út en að hámarki fimm tonn í einu. Mig langar að velta því upp af því að þannig háttaði til í sumar að einn bátur af svæði hv. þingmanns reri í Breiðafirðinum fyrri hluta sumars og veiðir nú við suðurströndina inni í þessu lokaða hólfi þar sem hann hefur heimildir. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að svoleiðis útgerðir muni einangrast vegna þess að bátarnir mega ekki sækja í pottinn fyrr en þeir eru komnir niður fyrir fimm tonn? Mun það ekki hafa þær afleiðingar að viðkomandi útgerð einangrist vegna þess að báturinn veiðir fyrir þær heimildir sem er skylt að nota í svokölluðu lokahólfi en getur í raun og veru ekki gert það sama og þetta haustið, þ.e. að róa á skötusel á suðursvæðinu þegar kemur fram á haustið?

Síðan segir hv. þingmaður að það sem hafi gengið mest fram af fólki sé að þeir sem hafa selt sig út úr greininni eigi mikið af fjármunum. Þá vil ég benda hv. þingmanni á að þær tvær breytingar sem hafa verið gerðar á fisveiðistjórninni eftir að þessi ríkisstjórn tók við hafa ekki gert neitt til þess að varna því að svoleiðis aðilar komist aftur inn í greinina. Nú er enn og aftur verið að opna glufu fyrir menn sem eru búnir að selja sig fjórum, fimm sinnum út úr greininni, bæði hvað varðar strandveiðarnar og þetta. Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Vill hann skoða núna að þeir sem hafa selt sig út úr greininni fái ekki að leigja út úr þessum skötuselspotti sem er verið að bæta við núna? Reynslan af strandveiðunum í sumar, þó að þær hafi um margt verið ágætar, sýndi t.d. að í sveitarfélaginu þar sem ég bý í voru 64 útgerðir við strandveiðar en (Forseti hringir.) enginn nýliði.