138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka umræðuna um það frumvarp sem hér hefur verið lagt fram. Frumvarpið fjallar um tilgreind atriði sem var kveðið á um í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að teldust til brýnna aðgerða í sjávarútvegsmálum og einnig atriða sem lúta að beinum annmörkum sem menn hafa séð á því fiskveiðistjórnarkerfi sem nú er. Ég þarf ekki að fara mjög ítarlega í gegnum þau atriði en ég get farið yfir þau aftur.

Í fyrsta lagi er lagt til að heimilað verði að stunda veiðar í atvinnuskyni á sama tíma og frístundaveiðar eru stundaðar. Ég greindi frá því í framsöguræðu minni að komið hefðu upp agnúar á því hvernig lög sem lutu að frístundaveiðum og ferðaþjónustuaðilum sem bæði stunduðu veiðar í atvinnuskyni og einnig frístundaveiðar fyrir ferðamenn, hvernig þetta hefði rekist á vegna þess að þar væri um óeðlilega afmörkun og takmörkun að ræða og þess vegna væri rétt að rýmka þau ákvæði. Ég veit að fyrir þá sem þarna eiga hlut að máli er þetta mjög mikilvægt.

Síðan er gert ráð fyrir að draga úr heimildum til að flytja aflamark á milli fiskveiðiára úr 33% í 15% og heimiluð 10% á þessu ári. Þarna er verið að leggja áherslu á, eins og ég hef rakið, að aflaheimildir sem ráðstafað er og veiddar innan fiskveiðiársins séu almennt veiddar en engu að síður þarf töluvert mikið svigrúm til því að útgerðirnar hafa einnig heimild til að flytja 5% eða ganga inn á 5% af hlutafénu í næsta fiskveiðiári og því er samt áfram umtalsverður sveigjanleiki.

Eins og einnig hefur komið fram á að auka línuívilnun. Það hefur verið ráðstafað ákveðnu aflamagni í línuívilnun sem ekki hefur náðst innan þess eins og henni hefur verið beitt á undanförnum árum og þykir því rétt að hlutdeild í línuívilnun einstakra báta sé aukin til að ná þeim markmiðum laganna sem sett voru á sínum tíma um línuívilnun. Þá er líka heimild til að kveða á um vinnsluskyldu á uppsjávarfiski eins og hérna hefur verið rakið. Þar er fyrst og fremst um að ræða stefnumörkun og áherslur í þeim efnum sem hefur verið almenn samfélagsleg krafa um. Síðan er kveðið á um aukna veiðiskyldu og heimild til flutnings aflamarks frá skipi takmörkuð og síðan eins og hérna hefur verið komið inn á, bráðabirgðaákvæði er lýtur að veiðistjórnun á skötusel og gjaldtöku fyrir úthlutun aflamarks. Þá hefur eins og hér hefur líka verið komið inn á verið kveðið á um skiptingu leyfilegs heildarafla í karfa.

Þetta hefur verið ítarleg og góð umræða um þessi mál og ég hef í andsvörum komið inn á einstök atriði sem spurt hefur verið um þannig að það er sjálfsagt ekki miklu við það að bæta. Varðandi skötuselinn vil ég leggja áherslu á, og um það hefur verið nokkuð rætt, að þarna er að koma nýr fiskur upp að landinu og dreifa sér hringinn í kringum landið og útbreiðslan hefur verið býsna hröð og er óvíst í sjálfu sér hvernig hann mun hasla sér völl við land. Það eru skiptar skoðanir um hvort eigi að láta hann gera það eða ekki. Ég ætla ekki að blanda mér inn í þá umræðu en þessum fiski er lýst sem miklum ránfiski. Af því að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson velti fyrir sér hvernig hegðan hans er varðandi kynjuð atriði þá er, eftir því sem ég best veit, einungis kvenfiskurinn veiddur. Karlfiskurinn lifir meira í samlífi við kvenfiskinn og þykir ósköp lítið burðugur, vægt til orða tekið, mér skilst að hann verði einhvers konar varta á þessum stóra kvenfiski og eyðist smám saman. En skötuselurinn er gríðarlegur átfiskur og ránfiskur og við sem höfum séð skötusel finnst hann ekkert sérstaklega frýnilegur, það er alveg hárrétt, en hvort hann á endilega að gjalda þess að hann sé óæskilegur er svo aftur annað mál. Sumir kalla hann ryksugu vegna þess að hann gangi svo á annað lífríki, aðra fiska í nágrenni sínu sem hann gleypir og einn lýsti fyrir mér að hann hefði fengið skötusel og þegar hann skar hann upp komu tveir stórir spriklandi þorskar út úr maganum á honum. Hvort það er satt eða ekki þá er þetta greinilega mjög sérstæður fiskur í íslensku lífríki. Þess vegna tel ég líka mjög mikilvægt að jafnframt því sem verið er að fara þarna nýja leið varðandi veiðar á honum að auknar séu á því rannsóknir og fylgst með hvaða áhrif hann hefur í íslensku lífríki, hver er útbreiðslan, hver er tímgun hans er og annað því um líkt því þetta er greinilega fiskur sem segja má að láti til sín taka, svo vægt sé til orða tekið, í íslensku lífríki þar sem hann ber niður. Þess vegna er mjög mikilvægt að þetta sé rannsakað. Hafrannsóknastofnun gerði nokkurt átak á liðnu sumri í þeim efnum en ætlunin er að því sé fylgt enn frekar eftir.

Af því að það hefur verið gert að umtalsefni að tekið hefur verið gjald fyrir viðbótaraflaheimildir sem gæti komið til með að vera úthlutað varðandi skötuselinn og það rynni að hluta til rannsókna í sjávarútvegi þá hef ég einmitt hugað að því að það mundi renna til aukinna rannsókna varðandi skötuselinn sem ég tel mjög mikilvægt. En eins og nú er háttað og allir þekkja er almennt niðurskurður á fjármagni vegna kreppuástands og erfiðleika í efnahagslífi þjóðarinnar og þá er töluvert mikill niðurskurður á framlögum til Hafrannsóknastofnunar og til starfsemi ráðuneytisins. Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið verður að taka á sig verulegan niðurskurð og það bitnar á þessu en þá er líka lag til að sækja rannsóknarfé til að rannsaka þennan fisk.

Gert er ráð fyrir að hinn hluti andvirðisins renni til byggðaáætlunar og til þess að efla annað atvinnulíf í sjávarbyggðum vítt og breitt um landið þannig að ekki er verið að taka þetta beint í ríkissjóð í óskylda starfsemi heldur á þetta að renna annars vegar til rannsókna og hins vegar til atvinnulífs í sjávarbyggðunum.

Ég vil leggja áherslu á það sem ég hef sagt og stendur í frumvarpinu að hér er um bráðabirgðaákvæði að ræða, gert er ráð fyrir því til tveggja ára. Það er nokkuð liðið á þetta ár og þess vegna eðlilegt að þetta taki til næsta árs líka. En komi hins vegar fram einhverjar aðrar ástæður til að lögum sé breytt á þessu sviði þá er það náttúrlega Alþingis að gera það. En þetta er þá tilraun og tilhögun sem er afmörkuð í tíma og rennur út nema Alþingi ákveði annað. Það var einnig verið að velta fyrir sér verði en þarna er lagt til verð sem er meðalverð á allan venjulegan kvóta í skötusel á síðasta ári.

Varðandi úthlutun á skötusel er gert ráð fyrir og það er nefnt í lögunum að nánar verði kveðið á um það í reglugerð og ég tel eðlilegt að þau grunnatriði sem muni standa í reglugerð um skötusel verði kynnt í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Þetta lýtur bæði að, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur komið að áður, netafjölda og tilhögun veiða hvað það varðar, sú umgjörð öll, sem ég er alveg sammála hv. þingmanni að þarf að taka til skoðunar og setja í ramma, óháð því hvort þessi þáttur skötuselsveiðanna er til umræðu heldur er mjög mikilvægt að gera það alltaf vegna almennra krafna í þeim efnum. Ég hygg að við séum öll sammála um að það eigi að setjast í þann farveg sem mönnum finnst ásættanlegt, bæði hvað varðar umgengni, nýtingu og meðferð fisksins.

Varðandi úthlutun eða hvenær þetta er boðið út þá hefur verið gert ráð fyrir að þetta verði boðið út á afmörkuðum tíma og allir geti óskað eftir að fá fyrstu úthlutun en síðan til að mega fá næstu úthlutun þurfi þeir að vera búnir að veiða að minnsta kosti ákveðinn hluta af því aflamarki sem þeir hafa tekið á leigu, áður en þeir fái viðbót. Með því móti aðlagi menn sig inn í þennan feril og að frá upphafi verði enginn útilokaður í þessu hafi menn á annað borð atvinnuréttindi til veiða.

Ég tel eðlilegt að þessi atriði sem koma fram í reglugerð, mér finnst ekkert óeðlilegt þó að ákveðin grunnatriði varðandi reglugerðina verði kynnt í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd samtímis því að fjallað verði um þessa þætti þar.

Frú forseti. Ég ítreka að ég þakka ágæta umræðu um þetta mál og treysti því að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fari mjög vandlega yfir málið eins og ég veit og treysti að það fái síðan farsæla meðferð í þinginu. Ég hygg að mörgum landsmönnum finnist mjög brýn þau atriði, þó að þau séu ekki stór, sem þarna er kveðið á um og brýnt að þau komist sem fyrst til framkvæmda. Ég ítreka að ég þakka góðar umræður um málið og vonast eftir því að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd afgreiði þetta mál vel og greiðlega.