138. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2009.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[20:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af síðustu orðum hæstv. ráðherra þá er það ekki merkilegt eða björgulegt innlegg í mannréttindaumræðuna ef á að standa að úthlutun varðandi skötuselinn án þess að það sé gert á málefnalegum forsendum. Ég er hræddur um að við fáum annað klögubréf frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna ef farið verður að gera það eftir óljósum reglum sem enginn veit um.

Hins vegar fannst mér ræða hæstv. ráðherra dálítið skýra það hvers vegna hann telur að rétt sé að fara 80% fram úr ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar með skötuselinn. Hann lýsir skötuselnum sem eins konar ránfiski í lífríki hafsins og þess vegna væri það til bóta fyrir lífríkið að veiða þann stofn niður.

Ég spurði hæstv. ráðherra fyrr í umræðunni um mjög afmarkaðar spurningar og ég ætla að ítreka þær núna.

Í fyrsta lagi: Telur hæstv. ráðherra að efnisatriðin um skötuselinn og þær breytingar sem hann er að leggja þar til séu og líta beri á þær sem stefnumarkandi fyrir fiskveiðistjórnina í landinu?

Í öðru lagi: Ég gagnrýndi harðlega að hæstv. ráðherra væri að sækja sér mjög opnar heimildir til þess að ráðskast annars vegar með geymsluréttinn og hins vegar að taka ákvarðanir um það sem hann kallar vinnsluskylduna varðandi uppsjávarfiskinn.

Ég hef ekki enn fengið nein svör við þessum spurningum. Mér finnst það vera óvirðing við Alþingi og ekki trakteringar sem hægt er að bjóða okkur að ekki sé reynt að svara á einhvern hátt, það getur vel verið að svarið sé ekki til af hálfu ráðherrans og það verður þá að koma fram, en mér finnst að ekki sé hægt að ljúka umræðunni þannig að hæstv. ráðherra geymi í hugarfylgsnum sínum hvaða hugmyndir hann hafi um það hvernig hann hyggist beita þeim gífurlega miklu og opnu heimildum sem hann er að koma fram með.

Að lokum. Línuívilnunin er á vissan hátt blekking vegna þess að það eru lög sem kveða á um hvað hægt er að leyfa mikið með línuívilnun í þorskinum og um hinar tegundirnar gilda reglugerðarákvæði, þannig að 20% munu ekki hafa þau miklu áhrif sem hæstv. ráðherra lætur í veðri vaka.