138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

afgreiðsla Icesave-málsins úr nefnd -- vinnulag á Alþingi.

[13:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða þetta Icesave-mál og hvernig á því hefur verið haldið hér í þinginu.

Í fyrsta lagi vil ég koma því að hér að ég sakna þess að ekki sé efnisleg umræða um þetta frumvarp, m.a. frá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni, um það sem er verið að setja þjóðina út í með þessu frumvarpi og með vilja ríkisstjórnarinnar, sem er komin í einhverja blindgötu sem hún kemst ekki aftur út úr. Það er mjög sérkennilegt að horfa upp á þetta. Það á að keyra þetta í gegn hvað sem það kostar, þannig blasir það við okkur þingmönnum og við þjóðinni.

Svo virðist það gleymast algjörlega, eins og þegar hv. þm. Róbert Marshall heldur innblásnar ræður hér, að stærsti hluti þessa máls og Icesave-samningarnir urðu nú til á vakt Samfylkingarinnar í viðskiptaráðuneytinu og Fjármálaeftirlitsins. Hér stendur svo samfylkingarfólk alltaf eins og það sé hvítþvegið af þessu öllu saman. En það var á þeirra vakt sem Icesave-samningarnir urðu til (Gripið fram í.) og þeir geta ekki staðið hér og reynt að koma sér undan ábyrgð, það er einfaldlega þannig.

Það er mjög athyglisvert að lesa hér álit sem fylgir áliti meiri hlutans, þ.e. álit 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar.

Ég ætla að leyfa mér, með leyfi frú forseta, að vitna hérna aðeins í textann:

„Það er ekki hægt að útskýra þessa stefnubreytingu AGS nema með þeim hætti að Bretar og Hollendingar hafi beitt pólitískum þrýstingi í stjórn AGS til að tryggja að íslenska ríkið taki á sig Icesave-skuldbindingarnar.“

Þetta segja hv. þingmenn Ögmundur Jónasson og Lilja Mósesdóttir og þarna liggur hundurinn grafinn. Evrópusambandið er, með hjálp þessara þjóða, að reyna að þvinga ríkisstjórnina til að samþykkja og ná í gegnum þingið skuldbindingum sem okkur ber ekki að taka á okkur. Okkur ber ekki að greiða þetta. Það er mun betra, segi ég, að taka sénsinn og láta þá fara með okkur fyrir dómstóla því að samkvæmt þeim samningum sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn ætla að samþykkja hér munum við borga (Forseti hringir.) þetta að fullu, hverja einustu krónu. Er þá ekki betra að láta dæma okkur til þess?