138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

þjónustusamningur við Ríkisútvarpið ohf.

136. mál
[14:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg ljóst af umræðum og innleggi frá öðrum þingmönnum að áhuginn á Ríkisútvarpinu er ávallt mikill en um leið tel ég óhjákvæmilegt í kjölfar ábendinga sem hafa komið fram að samhliða hinu nýja fjölmiðlafrumvarpi verði farið sérstaklega í skoðun á því hvernig hlutverk Ríkisútvarpsins eigi að vera á auglýsingamarkaði, ekki síst með samkeppni í huga.

Við skulum tala tæpitungulaust um þetta. Það hafa verið mjög skiptar skoðanir í öllum flokkum um hvort Ríkisútvarpið eigi að vera á auglýsingamarkaði eða ekki. Við þurfum að finna lendingu þannig að við ógnum ekki samkeppnisumhverfi á fjölmiðlamarkaði. Þar er mjög viðkvæmt ástand. Skjárinn er að fara af stað með áskriftarstöð og það gengur ágætlega. Ég vona að þeim vegni sem best en við sjáum að ástandið er ekki burðugt á auglýsingamarkaðnum og þetta er í rauninni sú líflína sem fjölmiðlar hafa í dag. Þar liggur auðvitað ábyrgð okkar þingmanna en ekki síst mennta- og menningarmálaráðherra að koma með raunhæfar lausnir við þeim erfiðleikum sem við blasa. Við þurfum á öflugum fjölmiðli að halda. Fjárhagslega traustir fjölmiðlar skipta þar miklu máli og þeir verða að fá það svigrúm sem þeir þurfa til að reka sig bærilega á markaði þannig að þeir geti sinnt sínu aðhaldshlutverki.

Ég vil þakka ráðherra svörin varðandi þjónustusamninginn og hvet hana til að setjast alla vega yfir hann og spjalla við forsvarsmenn Ríkisútvarpsins um hvernig framgangur þjónustusamningsins hefur verið. Að öðru leyti verður forvitnilegt að sjá hvernig hið nýja fjölmiðlafrumvarp kemur til með að líta út. Ég hafði gert mér vonir um að menn mundu taka líka m.a. á eignarhaldi á fjölmiðlum. Það hefur alla vega verið stefna okkar sjálfstæðismanna og hún hefur ekki breyst.