138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

ferðasjóður Íþróttasambands Íslands.

143. mál
[15:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka aftur hv. fyrirspyrjanda og hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Úthlutunarreglurnar tel ég að hafi verið útfærðar á mjög gagnsæjan hátt. Eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom inn á virðast markmiðin skila sér í úthlutuninni, þetta veltur á fjarlægðum. Eins og kom fram í umræðunni í síðustu viku verður sérstaklega litið til barna og ungmenna þegar samningur verður endurnýjaður, en félögin hafa einfaldlega sótt um ferðakostnað til ÍSÍ. Þessir styrkir koma vissulega börnum og ungmennum vel og fjölskyldum þeirra, en líka öðrum. Þeirri athugasemd var einmitt komið til skila í síðustu viku.

Hér var nefndur jöfnunarsjóður námskostnaðar sem hefur líka komið áður til umræðu. Niðurskurð má að hluta til skýra með því að hann hafði aukist verulega milli ára og það er ástæða þess að hann fær verulegan niðurskurð í þessu fjárlagafrumvarpi. Hins vegar hefur verið bent á að unnt sé að leiðrétta það að einhverju leyti, en af því að við ræðum hér um aðstöðumun og mæður þessa lands er vilji þeirra ekki síst sá að nemendur geti stundað nám í sinni heimabyggð og þurfi ekki að sækja endilega í jöfnunarsjóð námskostnaðar. Ég þykist vita að það verði til umræðu í næstu fyrirspurnum. Ég held að það lúti svo sannarlega að jöfnum tækifærum, að nemendurnir hafi tækifæri til að stunda nám í sinni heimabyggð til a.m.k. 18 ára aldurs. Það er kannski það sem mestu skiptir, ekki bara fyrir byggðarlögin í landinu, heldur líka fyrir fjölskyldurnar og verður erfitt að jafna til fulls, en er hins vegar verðug umræða sem þarf að taka hér.