138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

stofnun framhaldsskóla í Grindavík.

147. mál
[15:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég hef beint fyrirspurn til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um hver sé staða undirbúnings að stofnun framhaldsskóla í Grindavík. Við höfum hér á undan reifað helstu rökin fyrir því að halda börnum lengur í heimasveit og að það sé brýnt að aðgengi barna til náms heima fyrir sé gott. Þau rök þarf ekki að telja upp hér að nýju. Það sama gildir í rauninni varðandi þessa fyrirspurn að það hefur verið mikil umræða í Grindavík um þetta mál og byggð á sömu rökum og svipuðum rökum og annars staðar á landinu þar sem fólk hefur verið að hugsa sér til hreyfings með erindi til menntamálaráðuneytisins um stofnun framhaldsskóla eða framhaldsskóladeildar. Í þessu máli liggja jafnframt fyrir samþykktir aðalfundar sveitarfélaganna á Suðurnesjum þar sem samþykkt hefur verið ályktun þess efnis að næsti framhaldsskóli á Suðurnesjum yrði í Grindavík. Það er því rétt að beina þeirri fyrirspurn til menntamálaráðherra hver sé staða málsins í ráðuneytinu og hver sé í rauninni stefna ráðherrans varðandi uppbyggingu framhaldsskóla í Grindavík.

Nú háttar aðeins öðruvísi til í Grindavík en hinum mjög svo dreifðu byggðum t.d. á suðurhluta Vestfjarðakjálkans, þannig að Grindvíkingar hafa fengið að heyra það víðs vegar að samgöngur séu það góðar á þessu svæði að ekki þurfi að bregðast við óskum þeirra. Vissulega eru þau rök til. Hins vegar ber að geta þess að Grindavík er bæjarfélag af þeirri stærðargráðu að það er mjög eðlilegt að heimamenn þar vilji sjá þessa þjónustu í heimabyggð, bæði vegna þess að lögræðisaldurinn var hækkaður og þá breytast í rauninni þessi viðmið og eins skiptir þetta líka máli upp á samsetningu bæjarfélagsins að fá sterkan framhaldsskóla heima fyrir, það styrkir byggðina sjálfa, bæði gagnvart þeim sem þegar búa þar og jafnframt verður sveitarfélagið álitlegri kostur fyrir þá sem eru að velja sér framtíðarbúsetu. Þetta er ein af þeim grunnstoðum sem menn vilja sjá í hvaða sveitarfélagi sem þeir búa. Ég þekki það sem gamall sveitarstjórnarmaður að eitt af því helsta sem sveitarstjórnarmenn eru spurðir að á ferðalögum sínum í kringum kosningar og á íbúafundum er það hver sé framtíðarsýn þeirra gagnvart uppbyggingu framhaldsskóla í sveitarfélaginu. Ég hlakka til að heyra svör hæstv. menntamálaráðherra við þessari spurningu.