138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

kennsluflug.

107. mál
[16:00]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Sem svar við þeim spurningum sem fram hafa komið og þá frá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um snertiflugslendingar á ómalbikuðum brautum, þ.e. malarbrautum, þá verð ég að játa það alveg hreinskilnislega að mér er ekki alveg kunnugt um hvort slíkt sé bannað. En auðvitað er það þannig að sumir vellir eru teknir út og þeir eru notaðir í þetta. En þegar ég tala um malbikaðar brautir kemur upp í huga minn flugbrautin á Norðfirði vegna þess að mikið hefur verið rætt um hana sem sjúkraflugvöll við fjórðungssjúkrahúsið á Norðfirði, en þar er ekki malbikaður völlur. Þar vorum við að leggja yfir malarslitlag og þjappa það vel vegna þess að við höfðum ekki efni á því að gera það sem þurfti að gera, þ.e. klæða það, malbika eða setja varanlegt slitlag á, sem er auðvitað miklu betra gagnvart vélunum, vegna þess að við höfum fengið kvartanir vegna nýrra véla sem farið er að nota í sjúkraflugið, þ.e. þeirra sem eru lægri, þar geta orðið skemmdir á hreyflum vegna þess að grjót fer upp í. En ég mun kanna betur það sem varðar snertilendingar í kennsluflugi gagnvart ómalbikuðum brautum eða hvað það er.

En vegna þess að komið hefur verið inn á öryggisþætti og hv. þingmaður minntist á atriði áðan sem kom í blöðum vil ég halda því fram, virðulegi forseti, að þrátt fyrir einstök atvik, eins og það sem nefnt var sem auðvitað fara til rannsóknar, sé mjög vel haldið utan um öryggisþætti á Reykjavíkurflugvelli og í fluginu hjá okkur á Íslandi. Það er ekki tími til þess, virðulegi forseti, að fara í áframhaldandi umræðu um Reykjavíkurflugvöll, hún var hér um daginn. En vegna þess sem ég sagði áðan að ekki er verið að flytja kennsluflugið burtu núna á næstunni vil ég segja að í viðræðum við Reykjavíkurborg þá tel ég að allt eigi að koma þar til skoðunar um það hvernig nota eigi Reykjavíkurflugvöll verði hann þar áfram í samningum við borgina og (Forseti hringir.) minni á að ýmis tækifæri skapast með þeirri vinnu sem við erum að fara í, þ.e. með sameiningu flugstöðva og Keflavíkurflugvallar ehf. í eitt fyrirtæki.