138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

sameining rannsóknarnefnda samgönguslysa.

141. mál
[18:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar umræður. Ég nefndi það sérstaklega í máli mínu áðan að ég ætlaði ekki að fara að ræða þá hugmynd efnislega að sameina þessar nefndir. Það verður að bíða betri tíma og ekki tóm til þess hér og nú. En ég vil hins vegar vekja athygli á því að hæstv. ráðherra svaraði ekki fyrri spurningu minni sem var einfaldlega sú hvort hann hefði í hyggju að færa starfsemi rannsóknarnefndar sjóslysa frá Stykkishólmi í tengslum við boðaðar skipulagsbreytingar.

Það eina sem hæstv. ráðherra sagði var að búið væri að slá því föstu að verði þessi stofnun sett á laggirnar yrðu höfuðstöðvar hennar í Reykjavík. Hæstv. ráðherra sagði okkur ekki neitt um hvort hún ætti að hafa starfsstöð til að mynda í Stykkishólmi þar sem rannsóknarnefnd sjóslysa er með sína einu starfsstöð og þar hefur tekist mjög vel til. Ég held að allir séu sammála um það sem fara yfir þessi mál að starfsemi rannsóknarnefndar sjóslysa í Stykkishólmi hefur unnið mjög gott verk. Það er búið að vinna upp hala sem þar var, það er búið að standa mjög vel að þessu. Núverandi rannsóknarnefnd sjóslysa hefur líka staðið mjög vel við bakið á þessari starfsemi og að mínu mati er engin ástæða til að hrófla við starfseminni í Stykkishólmi, öðru nær. Í anda þeirrar byggðastefnu sem við viljum fylgja ætti auðvitað að reyna að hafa sem stærstan hluta starfsemi þessarar nýju nefndar, verði hún sett á laggirnar, í Stykkishólmi.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, segi ég: Ég ætla í sjálfu sér ekki að taka afstöðu til þessarar hugmyndar hæstv. ráðherra. Hann leggur áherslu á að þetta sé hagræðingarmál, hann leggur áherslu á að þetta mál sé til þess fallið að styrkja faglega vinnu innan þessarar nefndar. Það er hlutur sem við eigum eftir að fara miklu betur ofan í. En kjarni málsins er einfaldlega: Ætlar ráðherrann að nota tækifærið, þegar hugað er að þessari sameiningu, og færa (Forseti hringir.) verkefni af landsbyggðinni? Um þetta snýst þetta.