138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

framtíðaruppbygging á Vestfjarðavegi í kjölfar dóms Hæstaréttar.

[11:34]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mál upp í þinginu. Ég vil líka fagna því að svo virðist sem menn og konur úr öllum flokkum sameinist um að þetta sé forgangsverkefni og það að finna lausn á þessum vanda sem þarna blasir við. Ég beini því til hæstv. samgönguráðherra að hann beiti sér fyrir því.

Við skulum samt ekki gera lítið úr því að hér hefur fallið hæstaréttardómur og þeim ummælum sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hélt á lofti um að borist hefðu kærur sem aldrei fyrr. Við skulum alls ekki gera lítið úr því að Hæstiréttur hefur úrskurðað í þessu máli og sú vinna sem samgönguráðherra setti af stað í framhaldinu hygg ég að sé mjög heppilegur farvegur þar sem hann hefur kallað til alla aðila sem eiga hagsmuna að gæta í þessu máli.

Ég vil fyrst og fremst beina því til hæstv. samgönguráðherra að sá hópur sem ræðir þessi mál sé ekki hugsaður til þess að friða málið og þagga það niður eins og svo margir hópar sem myndaðir eru í stjórnkerfinu og hafa verið myndaðir í gengum tíðina. Hópurinn verður að vinna hratt, hlutirnir verða að gerast mjög hratt og við verðum á mjög skömmum tíma að fá niðurstöðu í þetta mál. Þegar mögulegt verður að setja fjármuni í vegaframkvæmdir á nýjan leik, í nýframkvæmdir, og aðeins fer að liðkast til með það hlýtur að vera forgangsverkefni að ráðast í þetta mál. Ég geri þá kröfu til hæstv. samgönguráðherra að hann beiti sér af fullum þunga fyrir því.