138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

2. umræða um Icesave og kvöldfundur.

[11:49]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt að ákveðið var áðan af meiri hluta Alþingis að hafa kvöldfund. Ég ítreka samt þær óskir mínar að forseti fundi með formönnum þingflokkanna og fái á hreint hversu lengi fundurinn á að standa. Hér hefur verið bent á að það eru kjördæmadagar á morgun og á mánudaginn og þingmenn á landsbyggðinni eru búnir að skipuleggja fundi og ætla að hitta kjósendur í kjördæmunum.

Svo er annað atriði sem hefur kannski ekki verið rætt, það að eitt sinn var stefna stjórnarflokkanna að gera þetta að fjölskylduvænni vinnustað. Það hefur alfarið brugðist hjá þessari ríkisstjórn. Kvöldfundir að undanförnu og sú pressa sem hefur verið lögð á minni hlutann um að skila nefndaráliti sem hefur þýtt að unnið hefur verið langt fram á nætur með starfsmönnum þingsins er einfaldlega ekki boðlegt, frú forseti.