138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:27]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að fjárlaganefnd sker ekki úr um það hvort lög ganga í berhögg við stjórnarskrá. Það er hins vegar skylda þingnefndar sem fjallar um lagafrumvörp að kanna til þrautar alvarlegar athugasemdir sem fram hafa komið um stjórnarskrárþátt þessa máls og það hefði verið gagnlegt fyrir þingið og gagnlegt fyrir okkur sem viljum taka þátt í þessari umræðu ef fyrir lægi einhver rökstuðningur fyrir því að þetta stangaðist ekki á við stjórnarskrá. Tvennt er auðvitað augljóst í málinu, stjórnarskráin gerir ráð fyrir því að ríkið geti veitt ábyrgð á lántökum, en reglan hefur alltaf verið sú að það væru einhver takmörk á ábyrgðinni. Hins vegar er hér augljóslega um að ræða framsal dómsvalds til erlendra dómstóla, sem felst í því að (Forseti hringir.) til þess að tiltekin regla íslensks réttar gildi þarf Hæstiréttur Íslands að fara eftir áliti (Forseti hringir.) EFTA-dómstólsins.