138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga.

[13:39]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. málshefjanda er sú vinna sem hafin er við undirbúning á flutningi þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga byggð á stefnumörkun fulltrúa ríkisvaldsins og sveitarfélaganna frá 2007 og gengið var frá helstu grunnforsendum í samkomulagi í marsmánuði sl. Þar er byggt á þeim grundvallarviðmiðum að um verði að ræða heildstæða yfirfærslu á málaflokknum, fagleg og fjárhagsleg ábyrgð á þjónustunni verði samþætt hjá sveitarfélögum, fjármagn fylgi verkefnum sem byggi á eigin tekjustofni sveitarfélaga, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði þá gerð skýrari og dregið úr skörun verkefna samhliða því sem þjónusta við notendur verði bætt.

Að því er varðar þær spurningar sem hér eru fram bornar er rétt að rekja að nú fer fram vinna á vegum verkefnisstjórnar sem vinnur eftir því skilgreinda verklagi sem lagt var upp með í marsmánuði sl. Í vinnunni fram undan verður í sjálfu sér ráðið úr mörgum þeirra spurninga sem hér koma fram en flækjustigið á þessum tilflutningi er vissulega umtalsvert. Á sama tíma bætist við að mikil framþróun er í umræðu um þjónustu við fatlaða og gríðarlegur áhugi er á því meðal notenda þjónustunnar að auka rými fyrir notendastýrða þjónustu þar sem notendurnir hafi meiri ráð á eigin lífi og meira ákvörðunarvald um hvar, hvenær og hvernig þjónustan er veitt, eins og gleggst kom fram t.d. hér í hádeginu þegar fulltrúar hóps sem hefur unnið að hugmyndum um þetta efni komu hingað og afhentu okkur ráðherrum félags- og heilbrigðismála tillögur hópsins. Aðrir hópar meðal notenda eru að vinna í þessu líka og það er mikill áhugi á því að þróa hugmyndafræðina áfram í tengslum við og á sama tíma og við vinnum að þessari yfirfærslu.

Grundvallarviðmiðið í aðferðafræðinni er að tryggja beri þjónustu á stórum þjónustusvæðum sem séu nógu stór til að geta boðið upp á heilsteypta þjónustu. Sú vinna sem farið hefur fram á vegum sóknaráætlunar fyrir Ísland í samvinnu við sveitarfélögin upp á síðkastið greiðir auðvitað fyrir því að við fáum heildarmynd á það hvernig þessi svæði munu líta út. Það er mjög mikilvægt að sveitarfélögin hafa þegar hafist handa við það verkefni í samvinnu við ríkisvaldið að skilgreina hvernig svæðin geta litið út.

Í prinsippinu er gert ráð fyrir því að allar stofnanir á hverju svæði færist yfir til sveitarfélaga, þar með taldar stofnanir sem eru nú með beinan samning við ríkisvaldið eins og t.d. Sólheimar í Grímsnesi sem hér voru nefndir. Gert er ráð fyrir því í hugmyndafræðinni að á móti komi jöfnunarkerfi þannig að greiðslur fyrir veitta þjónustu fylgi umönnunarþyngd á hverju svæði þannig að fyrir hendi sé skilvirkt jöfnunarkerfi sem jafni út mun milli þjónustuþyngdar í einstökum umdæmum eða á einstökum þjónustusvæðum. Það er mjög mikilvægt því að það er nú þannig í lífinu að erfitt er að spá fyrir um hvernig kostnaður af þessu tagi fellur til. Lífið er mjög óútreiknanlegt í því efni og síðan velur fólk sér auðvitað búsetu á ólíkum stöðum. Kannski er erfitt að spá fyllilega fyrir um slíka þróun og þess vegna er mikilvægt að fjármagnið fylgi hverjum einstaklingi sem kostur er.

Við höfum jafnframt farið yfir starfsmannamálin og hafið samstarf við Starfsmannafélag ríkisstofnana í því máli en það eru einkanlega starfsmenn þess félags sem hér um ræðir. Jafnt þetta mál sem og framþróun í notendastýrðri þjónustu kallar á endurhugsun þjónustunnar og er auðvitað mikið verkefni fyrir okkur öll að takast á við, líka starfsmennina, að framþróunin geti orðið með þeim hætti sem við helst viljum. Ég hef fundið fyrir mjög góðum vilja stéttarfélaganna til að vinna með okkur í því máli.

Að því er varðar síðan að öðru leyti þá þjónustu sem vantar, eins og (Forseti hringir.) búsetuúrræði, er eindreginn ásetningur okkar að vinna að bragarbót í því verkefni núna og við erum að fara að setja af stað starfshóp til að leysa úr (Forseti hringir.) þeim vanda.