138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga.

[13:59]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa góðu og málefnalegu umræðu og þau jákvæðu viðhorf sem hér ríkja bæði til framþróunar í þjónustu við fatlaða og flutningsins sem slíks. Ég vildi gera betur grein fyrir hugmyndum um úrbætur í búsetuúrræðum en mér gafst færi á í fyrra skiptið. Við búum við miklar vanrækslusyndir frá fyrri tíð þar sem menn létu þessi miklu vaxtarár algjörlega fram hjá sér fara og gerðu ekkert til að bæta úr brýnum skorti í búsetuúrræðum. Nú eru auðvitað engir peningar til og engir peningar í Framkvæmdasjóði fatlaðra en við erum að reyna að þróa aðferðafræði við uppbyggingu í málaflokki fatlaðra með sama hætti og við höfum getað á undanförnum vikum þróað nýjar hugmyndir og ný úrræði um hvernig hægt sé að leysa úr brýnni uppbyggingarþörf í málaflokki aldraðra.

Hvað varðar kostnað við málaflokkinn hefur hann verið greindur upp á 10 milljarða kr. Ítarvinna við það kostnaðarmat er í gangi og hugmyndir ganga þá út frá því að það sé fjárhæðin sem flytjist yfir til sveitarfélaga. Hitt verðum við auðvitað að horfast í augu við að notendastýrð þjónusta verður líklega dýrari og við munum þá þurfa að mæta því með einhverjum hætti. Ég held að það sé líka umhugsunarefni að fara yfir sænsku leiðina í aðferðafræði við veitingu þjónustunnar eins og nefnt var í umræðunni. Þar er í reynd um að ræða að almenn þjónusta við fatlaða er flutt til sveitarfélaga en ríkið tryggir síðan viðbótarþjónustu og þar með er jafnræði fólks að fullu tryggt óháð búsetu. Það má segja að það kunni að vera flóknara að útfæra slíkt á þann hátt að verkaskiptingin milli ríkis og sveitarfélaga sé alveg skýr en á móti kemur að jafnræðið er fullkomlega tryggt.

Ég held að við eigum að vinna áfram í þessum skilgreiningum samhliða því sem við þróum þjónustuna áfram, finnum notendastýrðri þjónustu betra pláss og vinnum áfram í þessum málaflokki á næsta ári. (Forseti hringir.)