138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns, sem er einn af mörgum góðum þingmönnum fjárlaganefndar sem bera hitann og þungann af þessu Icesave-máli. Það er fullt af spurningum sem er ósvarað og fullt af spurningum sem koma upp í hugann þegar við förum yfir þetta mál.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji það hafa einhverju breytt í raun fyrir þjóðina ef málið hefði farið fyrir dóm og Íslendingar dæmdir til þess að borga alla þessa upphæð með vöxtum og öllu því sem því fylgir — er einhver munur á því eða því frumvarpi eða þeirri leið sem ríkisstjórnin virðist vilja fara í dag, þ.e. að samningurinn virðist vera þannig að hann sé óendanlegur. Er einhver munur á því að láta kveða upp dóm um það að við eigum að borga eða bara borga út í hið óendanlega? Mig langar að vita hvort þingmaðurinn gæti hugsanlega verið sammála mér að það væri jafnvel skynsamlegra að fara með málið fyrir dóm og láta á það reyna hvort við eigum að borga eða ekki í stað þess að borga summuna eins og ekkert sé, eins og virðist vera leiðin sem fara á núna.

Eins langar mig að spyrja hv. þingmann hvaða erlendu sérfræðingar, og sérstaklega erlendir sérfræðingar í breskum lögum, hafi gefið álit sitt á þessum nýja samningi. Ég á bágt með að trúa því að enginn erlendur sérfræðingur hafi gefið álit sitt á samningnum. Ég velti því fyrir mér hvort einhver sérfræðingur í breskum lögum hafi gefið skriflegt álit á samningnum. Ég er sem sagt að spyrja um álitið og hvort dómaleiðin breyti einhverju.