138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:31]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það væri mjög æskilegt í þeirri stöðu sem blasir við, að óbreyttu frumvarpi, að í ljósi þeirrar andstöðu sem við málið er hjá stjórnarandstöðunni, mér heyrist hún vera samfelld, sé miklu æskilegra í svo stóru máli að geta afgreitt málið í meiri sátt. Annað tveggja er að gera, að hægja á vinnslu þess sem ég met lítil líkindi til eða þá að Alþingi felli frumvarpið. Ég held að það séu sömu líkur í því efni, því miður. Allt að einu legg ég málið upp með þeim hætti að stjórnarandstaðan hefur boðið upp í þann dans að taka snúning á frumvarpinu með það fyrir augum að reyna að reisa skorður við þeim hættum sem hún hefur komið auga á og ég skora á stjórnarmeirihlutann að taka því boði, þótt ekki væri nema taka gamlan svarfdælskan ræl, og láta á það reyna hvort við næðum þá saman til loka. (Fjmrh.: Eða mars.) Eða mars, já fyrirgefðu, þakka þér fyrir, hæstv. fjármálaráðherra, ég ruglaði þessu saman við Brúsið sem við kunnum nú einu sinni, en þá átti maður að reyta hár sitt þannig að það eru ekki sömu möguleikar allra að spila.