138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:11]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir þau varnaðarorð sem hann hafði hér uppi, alla vega í minn garð, að taka ekki mikið mark á Seðlabankanum, alla vega að styðja mig ekki svona þétt upp við álitið eins og ég hefði gert að hans mati. Það er algjörlega rétt hjá hv. þingmanni, það á að leita álits hjá fleirum og það gerðum við í sumar. Við fengum Hagfræðistofnun Háskóla Íslands m.a. til að skila áliti um þetta mál. Fjármálaráðuneytið gerði það og það var sama niðurstaða hjá þeim öllum. (Gripið fram í: Nei.) Það var sama niðurstaða (Gripið fram í: Nei.) hjá öllum þeim sem við leituðum til, það komust allir að þeirri niðurstöðu að Ísland gæti staðið við þessar skuldbindingar sínar. (TÞH: Þetta er ósatt.) Hver og einn einasti aðili sem lagði þetta inn, Seðlabankinn, Hagfræðistofnun, fjármálaráðuneytið, allir sem beðnir voru um að gefa álit á því hvort Ísland gæti staðið við þessar skuldbindingar komust að sömu niðurstöðu.