138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og get tekið undir margt af því sem hann sagði. Það sem hann kom m.a. inn á í ræðu sinni var að í lögum um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta er heimild fyrir því að sjóðurinn megi greiða út í íslenskum krónum. Þetta hefur svo sem oft verið rætt hér en aldrei fengist nein niðurstaða. Stjórn tryggingarsjóðsins tók þá ákvörðun að greiða Icesave-skuldbindingarnar í erlendri mynt en er reyndar að hugsa um að greiða öðrum jafnvel einhvern veginn öðruvísi.

Það sem mig langar kannski að velta upp við hv. þingmann — vegna þess að ég hef mjög miklar áhyggjur af krónunni — þ.e. það sem liggur núna fyrir er að í landinu eru 500–600 milljarðar bundnir í jöklabréfum. Við erum með mörg fyrirtæki sem skulda í erlendri mynt, einstaklinga sem eru með tekjur í íslenskum krónum og síðan þurfum við á næstu árum að endurgreiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum o.s.frv.

Því langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hann taki undir áhyggjur mínar af því að þegar sér kannski fyrir endann á þessu ferli, koma Icesave-skuldbindingarnar áfram, þ.e. þar á eftir, þannig að við gætum hugsanlega horft fram á það að þurfa að greiða gríðarlega mikið af erlendum gjaldeyri í a.m.k. 15–20 ár. Þá veltur náttúrlega allt á því að við öflum meira heldur en við eyðum.

Síðan langar mig líka að velta því upp við hv. þingmann, vegna þess að við höfum heyrt svo margar töfralausnir hvað þarf að gerast til að styrkja gengið. Fyrst átti að vera nóg að losa sig við seðlabankastjórann og fá norskan íhlaupamann, síðan átti gengið sjálfkrafa klárlega að styrkjast þegar sótt hefði verið um aðild að Evrópusambandinu og síðan þegar skrifað hefði verið undir Icesave-samningana átti það að styrkjast. (Forseti hringir.) En það styrkist bara ekki.