138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég færi hv. þingmanni alúðaróskir og hamingjuóskir með það að fá að gera grein fyrir áliti 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar. Það eru glæsilegri trakteringar en hv. þingmaður fékk hjá fjárlaganefnd. Þetta álit var á sínum tíma skrifað fyrir fjárlaganefnd og átti að vera eins konar gagn í þeirri vinnu sem fjárlaganefnd var að vinna en fékk svipuð örlög og skrif mislukkaðra rithöfunda, þetta var skrifað fyrir skúffuna og fékk í raun og veru enga meðhöndlun í hv. fjárlaganefnd. Að öðru leyti vil ég spyrja hv. þingmann hvort ekki hafi komið til tals í nefndinni sem hann sat í að reyna að meta hin efnahagslegu áhrif af því að hinum efnahagslegu fyrirvörum var breytt af hálfu framkvæmdarvaldsins í blóra við vilja Alþingis eins og við vitum og kemur klárlega fram í frumvarpinu sé það borið saman við lögin frá því í haust. Þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort þeir hafi ekki (Forseti hringir.) reynt að gera sér grein fyrir hinum neikvæðu efnahagslegu áhrifum fyrir þjóðarbúið af þessu tiltæki (Forseti hringir.) framkvæmdarvaldsins.