138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla rétt að geta þess að ræða hv. þingmanns var að mínu mati afskaplega góð. Ég hef reyndar yfirleitt gaman af ræðum hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar en ég mundi segja að þessi hafi verið sú besta. Það eru ýmsar ástæður fyrir því en aðalatriðið er að þar var farið yfir svo mörg gríðarlega sláandi atriði í þessu máli.

Ég tel mig hafa fylgst ágætlega með gangi þessa máls en í hvert skipti sem bent er á hversu ótrúlega mörg sláandi atriði hafa komið upp er mér samt brugðið, ég get ekki orðað það öðruvísi.

Hv. þingmaður fór t.d. vel yfir misræmið, allar blekkingarnar og þversagnirnar sem stjórnvöld hafa verið staðin að í þessu máli og að stjórnvöld virðast ekki geta lært af mistökunum. En spurningin er kannski þessi, og þetta er það sem ég hefði áhuga á því að biðja hv. þingmann að velta fyrir sér: Hvers vegna er þetta svona? Getur verið að það sé einfaldlega ekki til staðar neinn vilji til að læra og menn vilji ekki hlusta? Getur verið að það sé vegna þess að innst inni geri menn sér grein fyrir því að þetta er allt saman eitt endalaust klúður? Ég held að það hefði verið æskilegt að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hefðu heyrt ræðu hv. þingmanns. Því miður heyrðu þau hana ekki og ég sé reyndar engan stjórnarliða í salnum sem stendur þrátt fyrir að þeir hafi beðið um að talað yrði fram á kvöld. Þeir fóru því miður á mis við ræðu hv. þingmanns. Spurningin er þessi, og ég spyr vegna þess að hv. þingmaður fór svo vel yfir sögu málsins: Hvernig mál þetta vera? Vill fólkið ekki læra af reynslunni? Vill það ekki afgreiða þetta mál sómasamlega?